Það varð upplausn á þingi ASÍ í dag þegar Ragnar Þór, Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar og Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins hættu við framboð þeirra til miðstjórnar Alþýðusambands Íslands. Þau, ásamt félögum sinna félaga, gengu út af þinginu.
Ragnar vildi ekki veita fréttastofu viðtal eftir að hann gekk út af þinginu í dag, en hann var sem kunnugt er í framboði til forseta ASÍ.
Segist hafa farið vongóður inn á þingið
Hann skrifaði hins vegar langa Facebook-færslu í kvöld þar sem hann fór yfir ákvörðunina um að draga framboðið til baka.
Þar segir Ragnar að hann hafi farið vongóður og bjartsýnn inn á þingið eftir undirbúningsvinnu á óformlegum vettvangi ASÍ sem innihélt landssambönd verslunarfólks, Starfsgreinasambandsins og iðnaðarmanna. Góður andi hafi myndast og von um að sameinað gætu fulltrúar ASÍ náð góðum í komandi kjaraviðræðum, sem búist er við að muni reynast erfiðar.
Í aðdraganda þingsins hafi hann hins vegar farið að fá sendar til sín hótanir og upplifað persónuárásir.
„Síðustu daga og vikur fyrir þingið höfðu litast af ótrúlega ósmekklegri orðræðu og árásum á mína persónu. Ég var ítrekað kallaður valdasjúkur ofbeldismaður og sakaður um að ætla að segja upp öllu starfsfólki ASÍ kæmist ég til valda,“ skrifar Ragnar.
Þá greinir hann frá því að í morgun hafi hann fengið skjáskot af Facebook-færslu frá „formanni stéttarfélags innan ASÍ,“ eins og Ragnar orðar það. Vilhjálmur Birgisson, einn af þeim verkalýðsleiðtogum sem gekk út af þingi ASÍ í dag greindi frá því í Reykjavík síðdegis í dag að umræddur formaður sé Halldóra Sigríður Sveinsdóttur, formaður Bárunnar stéttarfélags.
„Í færslunni er ég enn og aftur sakaður um ofbeldi og markmið mitt sé fyrst og fremst að segja upp öllu starfsfólki,“ skrifar Ragnar.
Var við það að brotna niður
Eftir lestur færslunnar hafi Ragnar rætt málin við eiginkonu sína.
„Ég ræddi þetta við konuna mína yfir kaffibolla í morgun, eftir að við lásum nýjustu árásina í minn garð. Árás á mína æru og persónu. Árás á miðju þingi ASÍ sem ég vonaðist til að vera vettvangur sátta. Ákváðum við í sameiningu að þetta væri ekki þess virði. Því miður,“ skrifar Ragnar.
Þetta hafi ekki verið auðveld ákvörðun.
„Ég skal viðurkenna það að ég átti mjög erfitt eftir að ég tók þessa ákvörðun og var við það að brotna niður. Ekki vegna þess að ég fengi ekki meiri völd, heldur að sjá á eftir tækifærinu sem við höfðum til að verða ósigrandi. Ég trúði þessu svo innilega að þetta væri hægt og hvað við ætluðum að ná miklu fram fyrir fólkið okkar,“ skrifar Ragnar.
Finnur fyrir létti
Segist hann þó finna fyrir létti yfir því að vera laus úr sambandinu. Hann hafi tekið ákvörðun um vinna frekar með félögum sínan innan VR. Segist Ragnar vera viss um að VR takist vel upp í komandi kjaraviðræðum. Þá óskar hann þeim sem eftir sitja í ASÍ velgengni í störfum sínum.
„Ég ber engan kala til þess fólks sem var með yfirlýst markmið um að fella okkur á þinginu. Við þau vil ég segja. Nú erum við farin, ekki lengur fyrir. Nú fáið þið tækifæri til að leiða kjarasamninga ykkar félaga og vettvang ASÍ til að styðja við þá vegferð.“