Framendi bílsins lenti ofan í tjörninni en afturhjólin sátu uppi á göngustíg með fram Fríkirkjuvegi, rétt við gatnamótin við Skothúsveg eins og sjá má á myndum sem vegfarendur sendu Vísi í morgun.
Nú um klukkan níu voru tveir flutningabílar komnir á staðinn, þar á meðal einn með krana, að því er virtist til þess að freista þess að hífa bílinn upp á þurrt land.
Flughált hefur verið á götum og göngustígum borgarinnar í nótt og í morgun.
Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að ökumaðurinn hafi misst stjórn á bifreiðinni í hálkunni með þeim afleiðingum að hún endaði í Tjörninni. Engin slys hafi orðið á fólki og bifreiðin sé lítið skemmd. Tjörnin hafi heldur ekki mengast vegna slyssins.

Uppfært 9:45 Upplýsingum úr tilkynningu lögreglunnar bætt við fréttina.