Skagamenn hafa átt markametið í efstu deild karla frá árinu 1993 eða í 29 ár. ÍA-liðið skoraði 62 mörk í aðeins 18 leikjum þetta sumar og ekkert lið hefur verið neitt sérstaklega nálægt því að bæta það síðan.
Eða þar til í sumar þar sem bæði Víkingar og Blikar hafa nýtt sér fjölgun leikja auk þess að raða inn mörkum allt sumarið.
Víkingar urðu að sætta sig við tap á móti Stjörnunni í síðasta leik, tap sem færði Blikum titilinn. Víkingsliðið skoraði aftur á móti eitt mark í leiknum og jafnaði með því markamet Skagamanna frá 1993.
Víkingar hafa skorað 62 mörk og fá þrjá leiki til að bæta metið. Blikar eiga líka möguleika á að ná þessu metið. Tvö mörk í sigri á KA í síðasta leik þýddu að Blikar eru búnir að skora 60 mörk.
Blikar eiga þrjá leiki eftir. Þeir fá KR í heimsókn á morgun, heimsækja síðan Valsmenn viku síðar og taka síðan á móti Víkingum í lokaleiknum. Blikaliðið skoraði sjö mörk í þessum þremur leikjum fyrr í sumar.
Víkingar fá KA í heimsókn á morgun, taka svo á móti KR-ingum áður en kemur að Blikaleiknum. Víkingar skoruðu fimm mörk í þessum þremur leikjum fyrr í sumar.
Skori liðin jafnmörg mörk í þessum þremur umferðum þá enda þau bæði með 67 mörk.
Leikur Víkings á móti KA hefst klukkan 17.00 á morgun og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 4. Leikur Breiðabliks og KR verður sýndur beint klukkan 19.15 á Stöð 2 Sport.
- Þróun markametsins frá því að deildarskipting var tekin upp 1955:
- 23 mörk - ÍA 1955 (5 leikir)
- 23 mörk - ÍA 1958 (5 leikir)
- 41 mark - KR 1959 (10 leikir)
- 41 mark - KR 1960 (10 leikir)
- 45 mörk - Valur 1976 (16 leikir)
- 47 mörk - ÍA 1978 (18 leikir)
- 62 mörk - ÍA 1993 (18 leikir)
- 62 mörk - Víkingur R. 2022 (24 leikir)
- -
- Flest mörk á einu tímabili í efstu deild:
- 62 mörk - ÍA 1993
- 62 mark - Víkingur R. 2022
- 60 mörk - Breiðablik 2022
- 58 mörk - KR 2009
- 57 mörk - FH 2009
- 55 mörk - Breiðablik 2021
- 54 mörk - Keflavík 2008
- 53 mörk - FH 2005
- 51 mark - Stjarnan 2011
- 51 mark - FH 2012