Fótbolti

Stefnir allt í að Rosengård verji titilinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Stefnir allt í að Guðrún Arnardóttir verði sænskur meistari í annað sinn.
Stefnir allt í að Guðrún Arnardóttir verði sænskur meistari í annað sinn. Twitter @fotbollskanal

Guðrún Arnarsdóttir lék allan leikinn í 1-0 sigri Rosengård á Eskilstuna United í sænsku úrvalsdeild kvenna í fótbolta í dag. Rosengård er hársbreidd frá að verja titil sinn en Íslendingalið Kristianstad heldur í vonina um að Guðrún og stöllur hennar renni á bananahýði áður en tímabilinu lýkur.

Guðrún var á sínum stað í miðri vörn meistaranna og sá til þess að liðið hélt hreinu í dag. Liðið hefur spilað vel sóknarlega á tímabilinu en nú þegar farið er að sjá fyrir endann á deildarkeppninni hefur vörnin tekið við sér.

Lokatölur í dag 1-0 og Rosengård með átta stiga forystu á toppi deildarinnar þegar liðið á þrjá leiki eftir. Lið Elísabetar Gunnarsdóttur, Kristianstad, á leik til góða og getur minnkað muninn niður í fimm stig en ljóst er að mikið þarf að gerast til að Rosengård láti titilinn af hendi.

Það getur þó allt gerst í fótbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×