Starfshópur á vegum heilbrigðisráðuneytisins var skipaður fyrir ári síðan og átti að skila niðurstöðum í mars. Það tafðist þó vegna Covid faraldursins og á hópurinn enn eftir að skila af sér. Heilbrigðisráðherra hefur kallað eftir upplýsingum og segir alla sammála um að málefnið sé mikilvægt.
„Það er alveg klárt mál að það er tilefni til aðgerða en fyrst þurfum við kannski að ná saman af því að það eru svo margar hliðar á þessu máli. Þetta er ekki bara lýðheilsumál þetta er líka sjúkdómur, lífstílssjúkdómar sem hafa verið að þróast með breyttum venjum og hegðan,“ segir Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.
Undanfarið hefur fréttastofa fjallað um fjölgun á offituaðgerðum hér á landi en þar að auki hefur offitulyfjum ásamt sykursýkislyfjum verið ávísað saután sinnum oftar hér á landi það sem af er ári, samanborið við 2016. Talið er að einn af hverjum þremur Íslendingum sé of þungur og hluti þeirra glími við offitu.
Í svari Landlæknis við fyrirspurn fréttastofu kemur fram að brýn þörf sé á efnahagslegum aðgerðum, líkt og starfshópur frá árinu 2020 lagði til, þar á meðal lægri álögur á hollustu og hærri skatt á óhollustu, svokallaðan sykurskatt.
„Sykurskatturinn er eitt þessara atriða sem geta vissulega skilað árangri en það sem að við vitum er að sykurskatturinn þarf að vera mjög hár til þess að bíta,“ segir heilbrigðisráðherra.
Hægt verði að ná almennilega utan um málin þegar starfshópurinn skili af sér. Þá telur ráðherrann ljóst að breyta þurfi venjum, hegðun og viðhorfum í samfélaginu.
„Auðvitað er margt jákvætt verið að gera, það er ýmislegt vel unnið til að mynda í heilsugæslunni í heilbrigðum lífsstíl og svo framvegis, en við þurfum að gera betur,“ segir Willum.