Enski boltinn

Arteta þakkaði mynd­bands­dómgæslunni eftir nauman sigur í Leeds

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mikel Arteta og lærisveinar hans í Arsenal eru á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.
Mikel Arteta og lærisveinar hans í Arsenal eru á toppi ensku úrvalsdeildarinnar. EPA-EFE/ANDY RAIN

Mikel Arteta þakkaði myndbandsdómgæslu ensku úrvalsdeildarinnar eftir 1-0 sigur sinna manna á Elland Road í dag.

Arsenal vann eins nauman sigur og hægt verður þegar liðið lagði Leeds United fyrr í dag. Til að byrja með frestaðist leikurinn um 40 mínútur þar sem rafmagnsleysi olli því að tækjabúnaður dómarateymisins virkaði ekki. Þá fengu heimamenn í Leeds tvær vítaspyrnur, þá fyrri varði Aaron Ramsdale en sú síðari var dregin til baka eftir að dómari leiksins skoðaði atvikið betur.

„Ef þú ferð í MLS-deildina (í Bandaríkjunum) þá er þetta algengt,“ sagði Arteta um töfina sem varð á leiknum. „Þegar við förum þangað á undirbúningstímabilinu getur leik verið frestað um þrjá til fimm tíma vegna þrumuveðurs,“ bætti Spánverjinn við.

„Við erum ekki vön þessu en þurfum að venjast þessu þar myndbandsdómgæslan (VAR) skiptir okkur miklu máli. Hefðum við spilað án hennar í dag hefði þetta verið allt annar leikur.“

„Það er alltaf erfitt að koma hingað. Það er engin tilviljun að við vinnum sigra eins og þessa, við sýndum karakter og mikinn vilja.“

Arsenal marði Bodø/Glimt í Evrópudeildinni á fimmtudag og hafði sá leikur áhrif á undirbúninginn fyrir leik dagsins í dag. Líkt og þá var Bukayo Saka hetjan.

„Það voru margir leikmenn sem áttu erfitt uppdráttar á fimmtudaginn [gegn Bodø/Glimt]. Við eyddum aðfaranótt föstudags í Noregi og komum svo hingað til Leeds og unnum báða leikina. Sigrarnir sýna hvert við erum komnir sem lið og mikið hrós til leikmannanna. Þú verður að geta unnið leiki, sama hvað,“ sagði Arteta að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×