„Ég var að spinna sögur fyrir dóttur mína og notaði alls konar dæmi úr okkar lífi. Ég sagði sögu af önd sem lenti í alls konar ævintýrum. Ég spuri Hrafntinnu dóttur mína hvað henni fyndist að öndin ætti að heita og hún sagði án þess að hika, Hvítatá. Mér fannst það svo skemmtilegt og fallegt því það er þetta barnslega eðli, ímyndunaraflið og sköpunin sem börn hafa í sér sem er uppsprettan að nafninu“
Um er að ræða íslenska teiknaða barnaþætti og fyrstu fimm verða aðgengilegir á Stöð 2+ á fimmtudag.
„Mér fannst vanta Íslenskt barnaefni og tók ég því málin í mínar hendur,“ segir Kristján. Hann er einnig stjórnandi hlaðvarpsins Jákastið, sem framleitt er af TAL.

Valdeflandi fyrir börn
„Ég talaði við Auðun Braga Kjartansson sérfræðing á Sýn, hann teiknar og „animate-ar“ seríuna og er algjör snillingur og listamaður. Hann bjó til heiminn. Við töluðum við Völu Eiríks um að vera rödd Hvítutáar og hún var svo sannarlega til í það. Hún er algjör snillingur og listamaður líka.“
Þættirnir fjalla um öndina Hvítutá og snúast un það að þora, mega segja nei og líka bara að kýla á það. Kristján segir að markhópurinn sé börn á aldrinum tveggja til fjögurra ára en eldri börn geti auðvitað líka haft gaman af Hvítutá.

„Hvítatá er í raun um dóttur mína og aðstæður sem hún hefur verið í. Þættirnir eiga að vera valdeflandi fyrir börn. Rauði þráður þáttanna er hugrekki, forvitni, ímyndunarafl, gleði, ást og kærleikur.“
Kristján var á dögunum í viðtali í þættinum Ísland í dag og ræddi þar hlaðvarpið sitt, reynsluna af missi og barnaefnið Hvítatá. Innslagið má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.