Fótbolti

Vilja afnema úrslitakeppnina strax

Sindri Sverrisson skrifar
Ingibjörg Sigurðardóttir er leikmaður Vålerenga.
Ingibjörg Sigurðardóttir er leikmaður Vålerenga. Vålerenga

Forráðamenn norska knattspyrnufélagsins Vålerenga, liðsins sem Ingibjörg Sigurðardóttir leikur með, vilja að nýja úrslitakeppnin sem notast er við í úrvalsdeild kvenna í Noregi í ár verði afnumin strax.

Í Noregi virkar úrslitakeppnin þannig að fjögur efstu liðin í tíu liða deild fara í úrslitakeppni um norska meistaratitilinn og sæti í Meistaradeild Evrópu. Þau fá hins vegar ekki að taka öll stigin sín úr venjulegu deildarkeppninni með sér, heldur fær efsta liðið 6 stig, næsta lið 4 stig, þriðja liðið 2 stig og neðsta liðið 0.

Samkvæmt frétt Nettavisen fer því fjarri að allir séu ánægðir með þetta nýja fyrirkomulag og nú vilja forráðamenn Vålerenga, sem er í 2. sæti en fimm stigum á eftir Brann, að farið verði aftur í gamla fyrirkomulagið.

„Við munum berjast fyrir því að frá þessu verði gengið á ársþinginu í mars á næsta ári,“ segir í yfirlýsingu frá Vålerenga en samkvæmt dagskrá sem norska knattspyrnusambandið sendi nýlega frá sér er gert ráð fyrir því að úrslitakeppnin haldi áfram á næstu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×