Tilkynningin kemur eftir að Rekabi er sögð hafa verið færð í íranska sendiráðið í Seúl, en það hafi verið gert til þess að hún yrði ekki fyrir áreiti vegna þess að hún hefði ekki borið höfuðklút á meðan keppni stóð.
Áður kom fram að íranska sendiráðið í Seúl hefði rekið hana frá Suður-Kóreu en samkvæmt tilkynningu Rekabi á hún að vera á leið frá landinu með liði sínu, samkvæmt fyrir fram ákveðinni dagskrá.
BBC greinir frá því að í tilkynningu íþróttakonunnar hafi komið fram að slæm tímasetning og óvænt ákvörðun um að hún skyldi klifra hafi valdið því að klúturinn hafi fallið af höfði hennar.
Ekki eru allir sannfærðir um að tilkynningin komi frá Rekabi af fúsum og frjálsum vilja en orðalag hennar gefi til kynna að hún hafi verið þvinguð til þess að skrifa hana. Dæmi séu um það að aðrar íranskar íþróttakonur sem hafi keppt erlendis án þess að bera höfuðklút hafi verið neyddar til þess að senda frá sér svipaðar afsökunarbeiðnir.
BBC segist hafa heimildir fyrir því að vegabréf og sími Rekabi hafi verið tekinn af henni, tveimur dögum fyrir áætlaða brottför hennar frá Suður-Kóreu.
Rekabi var hampað af alþjóðasamfélaginu fyrir að hafa keppt án þess að bera höfuðklút í kjölfar mótmæla sem geisa nú í Íran vegna dauða hinnar 22 ára Mahsa Amini. Amini lést í haldi siðgæðislögreglu Íran í september en hún var handtekin fyrir að bera höfuðklútinn ekki nógu vel.
Amini er sögð hafa verið þekkt undir tveimur nöfnum, kúrdíska nafninu Jina og persneska nafninu Mahsa en kúrdísk nöfn séu ekki leyfð í Íran.
Mótmælin vegna aðgerða siðgæðislögreglunnar hafa nú staðið yfir í mánuð og hafa konur brennt höfuðklúta sína á götum úti, þúsundir manna mótmælt og margir látið lífið í átökum við lögreglu.