Afmæli þjóðaratkvæðagreiðslunnar var fagnað í dag við Alþingishúsið, boðið var upp á köku og var miðum sem skrifaðir voru á þjóðfundi um nýja stjórnarskrá varpað á Alþingishúsið nú í kvöld.
Katrín Oddsdóttir, lögfræðingur og formaður Stjórnarskrárfélagsins segist ekki hafa búist við því að bíða í tíu ár eftir að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu séu virtar. Nauðsynlegt sé að niðurstöður lýðræðislegra kosninga séu virtar, flestir séu á þeirri skoðun að Íslendingar þurfi nýja stjórnarskrá.
„Hérna erum við tíu árum seinna, mætt á Austurvöll og við verðum hérna tuttugu árum seinna ef þess þarf, við munum ekki gefast upp en þetta er orðið ansi langt það verður að segjast,“ segir Katrín.
Örn Bárður Jónsson, prestur og fyrrverandi meðlimur stjórnlagaráðs segir þjóðina ekki hafa brugðist, hún hafi lýst yfir stuðningi við tillögur ráðsins. Það sé Alþingi sem hafi ekki virt vilja þjóðarinnar, það sé alvarlegt.
„Áfram hef ég trú á þessari þjóð, að hún muni ekki láta hér við sitja og muni gera það sem að í hennar valdi stendur til þess að þessi draumur okkar um réttlátara Ísland og betra Ísland nái fram að ganga,“ segir Örn.
Viðtalið við Katrínu og Örn Bárð má sjá í spilaranum hér að ofan.