Handbolti

Carlos Martin Santos: Við eigum ekki skilið svona leikhús

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Carlos Martin Santos, þjálfari Harðar.
Carlos Martin Santos, þjálfari Harðar. Vísir/Hulda Margrét

Þjálfari Harðar frá Ísafirði, Carlos Martin Santos, var heilt yfir ánægður með sitt lið eftir tap gegn Stjörnunni í dag í Garðabænum. Hörður leiddi leikinn fyrstu 40 mínúturnar en tapaði á endanum með þriggja marka mun, 28-25.

„Mér fannst þetta góður leikur. Við tókum skref upp á við gegn Selfossi í síðasta leik og vonandi er þessi leikur staðfesting á að við séum enn að vaxa. Allir áttu góðan leik, allir spiluðu vel í liðinu svo ég er mjög ánægður fyrir þeirra hönd. Vonandi sigrum við næsta leik,“ sagði Carlos Martin Santos, þjálfari Harðar.

Aðspurður hvað hafi gerst þegar Hörður missti yfirhöndina í leiknum á fertugustu mínútu eftir að hafa leitt leikinn þar til þá, hafði Carlos Martin Santos þetta að segja.

„Að við erum Hörður og við erum lítið lið, það er það sem mér finnst. Ég skil það að við séum að koma hingað til Garðabæjar og Stjarnan er mjög, mjög gott lið og mjög stórt félag en frá mér séð þá vitum við að við erum þeir litlu en við eigum ekki skilið svona leikhús. Þetta er mín upplifun og hvernig ég sé leikinn. Auðvitað gerum við mistök,“ segir Carlos Martin Santos, þjálfari Harðar, en hann var ekki par sáttur með dómara leiksins á köflum í leiknum.

Carlos Martin Santos er ánægður með nýju leikmennina sína sem hafa verið að koma til landsins undanfarnar vikur og segir þá passa vel inn í hópinn.

„Mjög vel. Þeir eru að bregðast vel við. Vonandi getur Jhonatan spilað meira en það mun koma og Guilherme spilaði vel. Þeir passa vel inn í hópinn. Þeir, eins og ég sagði síðasta þriðjudag, þá eru þeir að gefa okkur annan lit í liðið og ég er mjög glaður með það,“ sagði Carlos Martin Santos, þjálfari Harðar.

Hvað þarf Hörður að gera til að vinna sinn fyrsta leik í Olís-deildinni?

„Að eiga fullkomnar 60 mínútur. Ekki að klikka á skotum og ekki að klikka á sendingum og hjálpa markvörðum okkar betur. Það eru mörg mistök í dag en ég held við séum að nálgast. Vonandi í næstu viku, vonandi á næstu tveimur vikum mun þetta koma,“ sagði Carlos Martin Santos, þjálfari Harðar, að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×