Sunak tilkynnti um ákvörðunina á Twitter í morgun. Fastlega hafði verið gert ráð fyrir því að Sunak myndi bjóða sig fram. Talning BBC hefur gefið til kynna að hann hafi verið fyrstur til að tryggja sér stuðning yfir 100 þingmanna Íhaldsflokksins, sem er sá þröskuldur sem þarf að yfirstíga til að geta boðið sig fram.
Framboð Sunak þýðir að tveir frambjóðendur hafa formlega tilkynnt um framboð. Hinn er Penny Mordaunt, leiðtoga neðri deildar breska þingsins. Boris Johnson, sem sagði af sér sem leiðtogi flokksins og forsætisráðherra í sumar er einnig sagður íhuga framboð.
Í færslu á Twitter segir Sunak að hann vilji fyrst og fremst einbeita sér að efnahagsmálum þar sem laga þurfi efnahag Bretlands. Þá sé mikilvægt að sameina Íhaldsflokkinn og ná árangri fyrir landsmenn.
The United Kingdom is a great country but we face a profound economic crisis.
— Rishi Sunak (@RishiSunak) October 23, 2022
That’s why I am standing to be Leader of the Conservative Party and your next Prime Minister.
I want to fix our economy, unite our Party and deliver for our country. pic.twitter.com/BppG9CytAK
Frestur til að bjóða sig fram rennur út síðdegis á morgun. Sem fyrr segir geta þeir aðeins boðið sig fram sem geta sýnt fram á stuðning eitt hundrað af þeim 357 þingmönnum sem sitja á þingi fyrir Íhaldsflokkinn. Það þýðir að hámarki þrír geta boðið sig fram.
Leiðtogakjörið fer fram í vikunni en sá sem ber sigur úr bítum þar mun taka við Liz Truss sem forsætisráðherra. Hún sagði af sér í síðustu viku eftir afar stutta forsætisráðherratíð, þá stystu í sögu Bretlands.