Fjórtán meðlimir sveitarinnar Wolverine Watchmen voru handteknir í október 2020. Útsendarar alríkislögreglunnar FBI og uppljóstrar höfðu þá komið sér fyrir innan samtakanna um mánaðaskeið. Leiðtogi hópsins, Adam Fox, var sakfelldur um að skipuleggja mannrán fyrir alríkisdómstól í ágúst. Þrír aðrir hafa ýmist verið dæmdir sekir eða játað sök en tveir verið sýknaðir.
Whitmer sakaði ekki en hópurinn hafði njósnað um ferðir hennar og æft hvernig hann ætlaði að nema hana á brott. Fyrir dómi kom fram að meðlimir hópsins hafi stutt borgarastríð sem gæti brotist út í kjölfar mannráns á þekktum einstaklingi. Mennirnir töluðu um sín á milli að handtaka Whitmer borgaralega og jafnvel taka hana af lífi.
Mennirnir þrír sem voru sakfelldir í dag æfðu með Fox en ferðuðust ekki til norðurhluta Michigan til þess að kortleggja aðstæður við sumarhús ríkisstjórans eða taka þátt í annarri æfingu fyrir mannrán. Verjendur þeirra fullyrtu að þeir hefðu slitið tengsl við hópinn áður en ráðabruggið var langt á veg komið.
Þeir voru engu að síður sakfelldir fyrir að aðstoða við hryðjuverk. skotvopnaglæpi og aðild að glæpagengi, að sögn AP-fréttastofunnar. Refsing þeirra verður ákvörðuð um miðjan desember.
Meðlimir vopnuðu sveitarinnar voru handteknir nokkrum mánuðum eftir að Donald Trump, þáverandi Bandaríkjaforseti, hvatti stuðningsmenn sína til þess að mótmæla sóttvarnaaðgerðum og „frelsa“ heimaríki sín, þar á meðal Michigan.