Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að það verði léttskýjað og fallegt veður sunnan heiða. Skýjað verði að mestu norðan- og austanlnands og smávegis væta á Austurlandi og með norðurströndinni. Hiti verður á bilinu tvö til sjö stig.
„Á morgun er spáð vestlægri átt, 3-8 m/s víðast hvar. Þá er útlit fyrir að ský muni að mestu hylja himinn á vesturhelmingi landsins og búast má við smáskúrum þar, einkum fyrripart dags. Á austanverðu landinu léttir til og þar verður því sólríkast á morgun.
Það er síðan tíðindalítið í kortunum áfram, spár gera heilt yfir ráð fyrir rólegu veðri út vikuna.“

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á föstudag: Vestlæg eða breytileg átt 3-8 m/s. Léttskýjað um landið austanvert, en skýjað með köflum vestantil og smáskúrir á stöku stað. Hiti 1 til 6 stig, en kringum frostmark á Norðausturlandi.
Á laugardag: Sunnan 5-10, skýjað og dálítil væta við suður- og vesturströndina, en bjartviðri norðaustanlands. Hiti breytist lítið.
Á sunnudag og mánudag: Austlæg átt og dálítil rigning, en þurrt að mestu um landið norðan- og vestanvert. Hiti 2 til 7 stig.
Á þriðjudag og miðvikudag: Breytileg átt, rigning með köflum og hiti 2 til 7 stig.