Tískutal er fastur liður á Vísi þar sem rætt er við ólíka einstaklinga um þeirra persónulega stíl og hvernig tíska nýtist þeim í daglegu lífi. Klæðaburður er sannarlega fjölbreytt listform en við fáum að skyggnast inn í ólíka fataskápa og fræðast nánar um það merkilega tjáningarform sem tíska er fyrir hverjum og einum viðmælanda.
Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?
Mér finnst skemmtilegast hvað hún getur verið fjölbreytt og hvað öll geta tjáð sig í gegnum tískuna.
Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?
Burberry frakki sem amma mín átti og gaf mér svo.
Hún keypti hann í Jersey árið 1983 og mér finnst heiður að fá klæðast honum öllum þessum árum seinna.

Eyðirðu miklum tíma í að velja föt hverju sinni?
Nei svo sem ekki dags daglega en þegar ég er að fara eitthvert sérstakt þá tek ég mér alveg góðan tíma. Þá er ég oftast búin að búa til outfit í hausnum og prófa það síðan. Ef það kemur ekki eins vel út og ég hafði ímyndað mér þá prófa ég mig bara áfram þangað til ég er sátt.
Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?
Ég hef alltaf verið tomboy og klætt mig í samræmi við það en svo á ég það til að vera algjör skvísa um helgar. Ég myndi segja að stíllinn minn sé svona streetwear og alltaf frekar kósí vibes.
Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?
Tomboy stíllinn hefur alltaf haldið sér en ég hef þó með aldrinum orðið meiri skvísa og nennt meira að hafa mig til.
Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?
Bara héðan og þaðan.
Ef ég sé einhvern í geggjuðu outfit-i þá hrósa ég oftast viðkomandi og legg svo ósjálfrátt á minnið hvernig stíllinn er.
Mér finnst líka gaman að skoða Pinterest og er svo að fylgja fólki á Instagram sem mér finnst vera með flottan fatastíl, eins og Ava Black.
Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?
Það sem mér finnst skipta mestu máli er að mér líði vel í fötunum mínum, að þau passi á mig en ekki að ég reyni að passa í þau.
Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?
Það mun vera rauður faux fur pels sem ég átti. Hann var stór og mikill og dró að sér mikla athygli. Ég á mjög erfitt með rauðan lit en einhverra hluta vegna leið mér bara vel í þessum pels og notaði hann mikið á tímabili.
Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?
Vertu í fötum sem láta þér líða vel. Ef þér líður ekki vel í flíkinni þá berðu þig ekki eins vel og þú gætir gert og þá nærðu ekki að shine like the star you are.