Íslendingaliðin Flensburg og PAUC unnu bæði sína leiki í fyrstu umferð riðlakeppninnar og höfðu því bæði tvö stig fyrir leik kvöldsins.
Heimamenn í Flensburg náði ágætis tökum á leiknum um miðjan fyrri hálfleikinn og leiddu með þremur mörkum að honum loknum, 15-12.
Liðið náði svo sjö marka forkskoti í upphafi síðari hálfleiks og leit aldrei um öxl eftir það. Flensburg vann að lokum öruggan fimm marka sigur, 30-25, og er því með fullt hús stiga eftir tvo leiki, en franska liðið hefur tvö.
Kristján Örn Kristjánsson var markahæstur í liði PAUC með sex mörk, en það dugði ekki til. Teitur Örn Einarsson hafði hins vegar hægt um sig í liði Flensburg og komst ekki á blað.
Þá vann Ferencváros góðan þriggja marka sigur gegn sænska liðinu Ystads, 37-34. Eftir fjögurra marka tap gegn Valsmönnum í fyrstu umferð er ungverska liðið nú með tvö stig í riðlinum, en Ystads er enn án stiga.