Fótbolti

Wolves búið að ráða Lopetegui

Smári Jökull Jónsson skrifar
Julen Lopetegui er nýr þjálfari Úlfanna í ensku úrvalsdeildinni.
Julen Lopetegui er nýr þjálfari Úlfanna í ensku úrvalsdeildinni. Vísir/Getty

Wolves hefur staðfest ráðningu Julen Lopetegui, fyrrum þjálfara Real Madrid og spænska landsliðsins. Lopetegui tekur við Wolves um miðjan mánuðinn.

Lopetegui var rekinn frá Sevilla í byrjun október, tveimur árum eftir að hafa unnið Evrópudeildina með félaginu. Hann hefur komið víða við á ferlinum og tók meðal annars við Real Madrid í upphafi tímabilsins 2018-19 en staldraði þó stutt við og var rekinn í lok nóvember eftir slæmt gengi.

Áður en hann tók við Real var hann þjálfari spænska landsliðsins og kom þeim á Heimsmeistaramótið í Rússlandi árið 2018. Þegar á mótið var komið var tilkynnt um samning hans við Real Madrid og ákvað spænska knattspyrnusambandið þá að reka hann áður en spænska liðið hafði hafið keppni í riðlakeppninni.

Lopetegui tekur við Wolves um miðjan nóvember en hann hafði áður hafnað tilboði félagsins af persónulegum ástæðum. Wolves sagði Bruno Lage upp í byrjun október en Lopetegui var fyrsti kostur félagsins sem eftirmaður Lage.

„Frá upphafi hefur Julen verið okkar fyrsti kostur og við hlökkum til að bjóða hann og teymið hans velkominn á næstu vikum,“ sagði Jeff Shi, stjórnarformaður Wolves, þegar tilkynnt var um ráðninguna.


Tengdar fréttir

Bruno Lage rekinn frá Wolves

Portúgalski knattspyrnustjórinn Bruno Lage hefur verið rekinn frá enska úrvalsdeildarfélaginu Wolves eftir aðeins 16 mánuði í starfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×