Fatlaður maður frá Írak og tvær írakskar stúlkur sem stunduðu nám við Fjölbrautarskólann í Ármúla voru á meðal fimmtán hælisleitenda sem var vísað úr landi í síðustu viku. Á myndum sem náðust á vettvangi sáust lögreglumenn bera manninn úr hjólastól sínum inn í lögreglubifreið.
Fjöldi félagasamtaka hefur fordæmt brottvísanirnar, þar á meðal barnahjálp Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Íslandsdeild Amnesty International, Öryrkjabandalagið, Sjálfsbjörg, Rauði krossinn á Íslandi og Kennarasamband Íslands.
Í viðtali í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í gærkvöldi sagðist Helgi Valberg Jensson, yfirlögfræðingur ríkislögreglustjóra, skilja gagnrýni á brottvísanirnar.
„Þetta eru ekki verkefni sem nokkur hefur ánægju af,“ sagði hann.
Hafnaði hann frásögnum af því að lögreglumenn hefðu setið fyrir stúlkunum tveimur fyrir utan Fjölbrautarskólann í Ármúla. Stúlkurnar hafi verið teknar höndum í búsetuúrræði fjölskyldu þeirra í Hafnarfirði.
Spurður að því hvers vegna lögreglumenn hefðu tekið síma af fólkinu þegar það var handtekið sagði Helgi það gert til að tryggja öryggi. Símarnir væru þó ekki hættulegir í eðli sínu.
„Við erum með handtekna einstaklinga hérna í höndunum og þá ber okkur að tryggja ekki síst öryggi þeirra. Þetta er svona liður í þeirri framkvæmd. Hvort að það þurfi að endurskoða þetta eða eitthvað er bara eitthvað sem við verðum þá að fara yfir,“ sagði Helgi.
Í frétt á vef RÚV kom fram að ekki væri víst að hægt væri að skera úr um hvort að lögregla eða hælisleitendur færu með rétt mál um hvað gekk á við handtökurnar þar sem ekki væri kveikt á búkmyndavélum lögreglumanna allan tímann.
Þar er haft eftir Helga að það sé meðal annars gert af tillitssemi við fólk sem sé í óþægilegum aðstæðum.