Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að rigning verði suðaustanlands, en annars væta með köflum. Eftir hádegi verði yfirleitt þurrt á Norðurlandi.
Reikna má með að hiti á landinu verði á bilinu fjögur til tíu stig.
„Suðaustan stinningskaldi eða allhvass vindur í fyrramálið og bætir í úrkomu um tíma. Skúrir eftir hádegi á morgun og hvessir heldur sunnantil, en það verður hægari vindur og þurrt um landið norðanvert. Áfram milt í veðri.“

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á miðvikudag: Suðaustan og austan 10-18 m/s. Rigning um landið suðaustanvert, sums staðar talsverð úrkoma, en væta með köflum annars staðar. Yfirleitt úrkomulítið á Norðurlandi. Hiti 5 til 10 stig. Bætir í vind suðvestantil síðdegis.
Á fimmtudag: Suðaustan og austan 10-18. Rigning suðaustanlands, talsverð á köflum, en dálítil væta annars staðar. Hiti breytist lítið.
Á föstudag: Austan 8-15 og væta af og til, en samfelld rigning á Suðausturlandi. Hiti 3 til 9 stig.
Á laugardag, sunnudag og mánudag: Ákveðin suðaustan- og austanátt. Rigning suðaustantil, en lengst af úrkomulítið á Norður- og Vesturlandi. Hiti breytist lítið.