Fótbolti

Carew dæmdur í fjórtán mánaða fangelsi fyrir stórfelld skattsvik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
John Carew átti góðu gengi að fagna með Aston Villa.
John Carew átti góðu gengi að fagna með Aston Villa. getty/Mark Thompson

John Carew, fyrrverandi landsliðsmaður Noregs í fótbolta, hefur verið dæmdur í fjórtán mánaða fangelsi fyrir gróf skattsvik. Auk þess þarf hann að greiða háa sekt.

Carew var kærður fyrir að skulda 5,4 milljónir norskra króna í skatt. Það gerir tæplega 78 milljónir íslenskra króna.

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að Carew hefði ekki svikið viljandi undan skatti. Þá viðurkenndi hann brot sín. Ef dómurinn hefði komist að þeirri niðurstöðu að Carew hefði vísvitandi svikið undan skatti hefði hann líklega fengið rúmlega tveggja og hálfs árs fangelsisdóm.

Carew „slapp“ hins vegar með eins árs og tveggja mánaða fangelsi. Hann þarf einnig að greiða 540 þúsund norskar krónur í sekt. Það jafngildir tæplega átta milljónum íslenskra króna.

Á ferli sínum lék Carew meðal annars með Valencia, Roma, Lyon og Aston Villa. Hann lék 91 landsleik fyrir Noreg og skoraði 24 mörk.

Eftir að skórnir fóru á hilluna byrjaði Carew að leika. Hann lék meðal annars gamla fótboltahetju í sjónvarpsþáttunum Heimavellinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×