Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir á 3. hæð í Kringlunni sem verður nýtt veitinga – og afþreyingarsvæði. Sambíóin hafa ekki farið varhluta af þeim framkvæmdum. Öll ásýnd bíósins hefur tekið stakkaskiptum og er aðkoman hin glæsilegasta. Stærsta og flóknasta breytingin er smíði á nýjum lúxussal en arkitektar fengu þá djörfu hugmynd að byggja salinn upp úr þaki Kringlunnar.
Nýi salurinn er einstakur á allan hátt og lúxus í orðsins fyllstu merkingu. Fyrir utan allra bestu gæði í hljóði og mynd verða sætin mesti lúxus sem sést hefur á landinu. Fremst í salnum verða legusæti þar sem virkilega er hægt að láta fara vel um sig líkt og í sófanum heima. Önnur nýjung eru parasætin aftast í salnum eða „private panel“ þar sem pör geta legið þéttar saman og notið sýningarinnar. Í heild tekur lúxussalurinn 70 manns í sæti.