Stjarnan þremur mörkum yfir í hálfleik eftir að hafa mest náð sex marka forskoti en Valsmenn voru fljótir að snúa stöðunni sér í vil í seinni hálfleik, þrátt fyrir að spila ekki á sínu sterkasta liði.
„Fyrri hálfleikur var mjög góður og framhald af því sem við vorum að gera í síðasta leik. Við vorum 19-16 yfir eftir hann, vorum að skjóta vel og sjálfstraust í liðinu. Seinni hálfleikur var slappur. Þar spilar inn í að markvarslan hjá Val var ekkert sérstök í fyrri hálfleik en Bjöggi [Björgvin Páll Gústavsson] var góður í seinni.
Hvort að skotin voru svona léleg veit ég ekki. Bjöggi er fábær markvörður, enda í landsliðinu, en við erum að skjóta svolítið mikið finnst mér beint út frá hendi, í millihæðina. En við fengum fín færi. Síðan smitaðist þetta yfir í varnarleikinn þar sem menn misstu trúna og ég er svekktur með það,“ sagði Patrekur.
Adam meiddist í upphitunarleik eftir stórleikinn
„Við spiluðum vel í fyrri hálfleik og þá var flott flot á þessu, og við náðum þá líka hraðaupphlaupunum. Kannski var svolítið hnoð og kannski stóðu Valsararnir þéttar, en samt sem áður enduðum við oftast með fín færi. Bjöggi var munurinn í seinni hálfleik, og síðan líka Benedikt sem við reyndum að taka út,“ sagði Patrekur, en Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði tíu mörk í leiknum:
„Mér fannst hann tæta okkur, mikil orka í honum og hann er góður leikmaður. Við vorum með hitt alveg, þannig séð. En ég er svekktur að hafa ekki sýnt meira en hálftíma af góðum leik gegn Val.“

Eftir stórleik gegn Selfossi í síðasta leik var Adam Thorstensen ekki í marki Stjörnunnar í kvöld:
„Adam er meiddur. Hann meiddist á æfingu í nýjum upphitunarleik sem ég var með,“ sagði Patrekur en verður þá ekki farið aftur í þann leik?
„Jú, jú. Þetta var bara klúður hjá honum. Þetta er mjög skemmtilegur boðhlaupsleikur sem að Grímur [Hergeirsson, þjálfari] var með á Selfossi en Adam var bara óheppinn.“