„Þetta er vafalaust besti kosturinn fyrir Færeyjar og ég er ánægður með það, að allir á þingi, fyrir utan einn flokk, sjái kostinn með samstarfinu. Þetta er er hið rétta í stöðunni,“ segir sjávarútvegsráðherra Færeyja, Árni Skaale, við Danska ríkissjónvarpið.
Nú virðist það aðeins vera Sjálvstýri, flokkur sem hefur einn þingmann inni á þingi, sem ekki styður samninginn við Rússa. Sjávarútvegsráðherra segir að samningsviðræður um endurnýjun samningsins hefjist sem allra fyrst, jafnvel á morgun.
Fiskveiðisamningurinn hefur verið í gildi í einhverri mynd frá árinu 1977 og er endurnýjaður á ári hverju. Með samningnum fá Færeyjar þorskkvóta innan lögsögu Rússa í Barentshafi. Rússar fá aftur á móti að veiða kolmuna í færeyskri lögsögu og fá þar að auki að umskipa í færeyskum höfnum.
Samningurinn hefur sætt gagnrýni, bæði innan færeysku ríkistjórnarinnar og þeirri dönsku, eftir innrás Rússlands í Úkraínu. Jenis av Rava, sem rekinn var úr embætti utanríkis- og menntamálaráðherra á dögunum, sagði nýlega að Færeyjar ættu að slíta öllu samstarfi við Rússa.
Sjávarútvegsráðherra segir samninginn líklega þann mikilvægasta í færeyskum sjávarútvegi. Hann hafi verið lengi í gildi, bæði á friðartímum og þegar stríð geisar. Hann ítrekar að viðskiptaþvinganir á hendur Rússa gildi ekki um matvælaframleiðslu.