Breska ríkisútvarpið greinir frá því að fólk sem unnið hefði fyrir Yeezy, undirmerki Adidas sem West fór fyrir, hefði meðal annars sakað West um að hafa sýnt starfsfólki klámfengnar myndir og myndbönd, sem lið í einhverskonar eineltisherferð.
Í nafnlausi bréfi kemur fram að yfirmenn hjá fyrirtækinu hafi vitað af vafasamri hegðun West en kosið að aðhafast ekkert. Adidas segir ekki liggja fyrir hvort eitthvað sé til í ásökununum.
„Engu að síður tökum við ásakanir sem þessar alvarlega og höfum því ákveðið að hrinda af stað sjálfstæðri rannsókn málsins undir eins, til þess að komast til botns í málinu,“ segir í yfirlýsingu frá Adidas.
Sagður hafa sýnt myndefni af sjálfum sér
Adidas sleit samstarfi sínu við West í síðasta mánuði eftir að hann hafði frammi hatursfull ummæli í garð gyðinga.
Meðal þess sem West er gefið að sök er að hafa reynt að ógna starfsfólki með „ögrandi og kynferðislegri hegðun, sem beindist oft að konum.“
Meðal þess sem fólst í þeirri hegðun hafi verið að sýna starfsfólki kynferðislegt myndefni af Kim Kardashian, fyrrverandi eiginkonu West, sem og myndefni af honum sjálfum.
„[West] hefur, á árum áður, hellt sér yfir konur með móðgandi orðum og notaðist oft við kynferðislega brenglaðar tilvísanir þegar hann veitti viðbrögð við hönnun. Slík viðbrögð frá samstarfsaðila er eitthvað sem starfsmenn Adidas ættu aldrei að þurfa að þola, né ætti Adidas að samþykkja slíkt,“ segir í bréfinu.
Breska ríkisútvarpið segist hafa leitað viðbragða hjá West, án árangurs.