Í gamni og alvöru: „Hvað í andskotanum erum við búin að koma okkur út í?“ Rakel Sveinsdóttir skrifar 29. nóvember 2022 07:01 Hjónin Ragnhildur Ágústsdóttir og Júlíus Ingi Jónsson opnuðu Lava Show í Vík í Mýrdal árið 2018 og á dögunum annan stað á Granda í Reykjavík. Þau viðurkenna að oft hafa þau verið við það að gefast upp enda meira en að segja það að vera í nýsköpun. Saga Lava Show er mjög skemmtileg og mögnuð, en líka saga um áföll og erfiðar áskoranir. Vísir/Vilhelm „Það er frekar fyndið hversu mikið það er alltaf lagt upp úr góðri hugmynd. Stóra málið er hins vegar að framkvæma. Því hvað er geggjuð hugmynd ef það verður ekki neitt úr neinu?“ spyrja hjónin Júlíus Ingi Jónsson og Ragnhildur Ágústsdóttir stofnendur Lava Show. Lava Show opnaði í Vík í Mýrdal árið 2018 en á dögunum í Fiskislóð á Granda. „Það komu alveg tímar í upphafi þar sem við spurðum okkur „Hvað í andskotanum erum við búin að koma okkur út í?“ En þá vorum við auðvitað komin svo djúpt í þetta,“ segir Ragnhildur og skelli hlær. „Já, já, þetta var auðvitað bara svona No turning back staða,“ botnar Júlíus. Saga stofnenda Lava Show er mögnuð. Skemmtileg. Ótrúleg. Enda ein þessara dásamlegu frásagna um nýsköpun. Sem er svo miklu meiri og flóknari en margur heldur. Þrautseigjan. Þolinmæðin. Hugsjónin. Erfiðleikarnir. Peppið. Áskoranirnar sem taka svo mikið á. Í spjallinu við þau Ragnhildi og Júlíus er oft skellt upp úr. Hlegið. Enda svo margt spaugilegt að rifja upp. Svona eftir á…. En öllu gamni fylgir alvara og svo má með sanni segja að eigi við um Lava Show. Sem jú, nú þegar er á tveimur stöðum á Íslandi. En mun eflaust opna á fleiri stöðum í heiminum fyrr en varir. Við skulum heyra söguna á bakvið fyrirtækið. Það er stutt í hláturinn hjá þeim hjónum þegar spjallað er. Ekki síst þegar að rifjað er upp misheppnaðar viðreynslur Júlíusar við Ragnhildi, sem hreinlega virtist aldrei taka eftir honum. En það er líka oft hlegið þegar atvik og tímabil eru rifjuð upp frá upphafstíma rekstursins. Sem þó reyndi á og var oft á tíðum mjög erfiður tími. „Mér finnst ég kannast svo við þig…“ Frá því að Lava Show opnaði í Vík árið 2018 hafa hjónin oft sagt frá því hvernig hugmyndin vaknaði árið 2010 þegar þau gengu upp að eldgosinu á Fimmvörðuhálsi. Og langaði að endurgera þá upplifun. Ragnhildur og Júlíus eru samt bara eins og hver önnur hjón. Voru bæði í starfi, að ala upp börn og byggja upp heimili. Búin í námi erlendis þar sem Ragnhildur lauk meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun en Júlíus meistaragráðu í frumkvöðlafræðum. Sem hljómar reyndar frekar vel, svona með tilliti til þess að hraunbræðsla Lava Show er íslensk nýsköpun og því sú eina sinnar tegundar í heiminum. „Nei mér fannst ekkert varið í þetta,“ segir Júlíus þá um námið. „Ragga vildi bara endilega fara í nám til útlanda og þá var ekkert annað fyrir mig en að gera það líka,“ en bætir við að honum hafi fundist námið ganga heldur mikið út á að tala bara um hvað aðrir hefðu gert. Enda erfitt að kenna nýsköpun. Áður en Ragnhildur og Júlíus urðu par, voru þau góðir námsfélagar í Háskólanum í Reykjavík. Sem er reyndar frekar vandræðaleg upprifjun fyrir Júlíus. Hvers vegna? „Ragga var að vinna á auglýsingastofu sem ég heimsótti oft sem sendill. Alltaf með derhúfu. Eitt sinn var ég með félögum mínum á bar og sá Röggu sitja ein við barinn. Ég tilkynnti félögunum að ég ætlaði að taka konuna tali. Enda var hún búin að heilsa mér sextíu sinnum þetta sumar því þetta voru alls sextíu skipti sem ég fór á auglýsingastofuna,“ segir Júlíus en bætir við: En þetta var hrikalega misheppnað hjá mér. Því ég kom með einverja pikkup línu sem átti að vera djók en Ragga fattaði ekki einu sinni hver ég var og stórmóðgaðist.“ Til að bæta gráu ofan á svart var Ragga síðan fyrsta manneskjan sem Júlíus sá þegar hann byrjaði í námi í HR. Og enn versnaði staðan. „Einn daginn hjálpaði ég henni að leysa úr einhverju stærðfræðiverkefni. Sem var rosalega vandræðalegt líka því ég fattaði að hún var ekki heldur að muna eftir mér af barnum.“ Og enn varð það svartara. „Síðan urðum við mjög góðir námsfélagar og lærðum oft saman. Sem gekk vel og allt það nema bara að Ragga var alltaf að segja við mig ,,Mér finnst ég kannast svo við þig…,“ segir Júlíus sem á endanum sagði Ragnhildi að hún hefði heilsað honum alls sextíu sinnum um sumarið og hitt hann á bar um haustið. En nú eru þau hjón. Ragnhildur starfar hjá Controlant og hefur verið mjög viðloðandi veigamiklum störfum í tæknigeiranum. Áður en þau opnuðu Lava Show í Vík, starfaði Júlíus við sölu- og markaðsmál hjá 365 miðlum (nú Sýn hf.), en þangað hafði hann flust með símafyrirtækinu TAL þegar það var keypt af 365 miðlum. Lava Show í Vík í Mýrdal er allt öðruvísi upplifun en Lava Show í Reykjavík. Í Vík, þar sem Lava Show er til húsa í gamla kaupfélagshúsinu, er lögð áhersla á Kötlugosið 1918 og stemning byggð upp í kringum það. Í Reykjavík er Lava Show í 700 fermetra húsnæði með alveg nýja sýningu sem hjónin segja allt aðra upplifun en þá sem er fyrir austan. Samtalið við slökkviliðsstjórann Eitt það merkilega við upphafið í sögu Lava Show er að skötuhjúunum hafi tekist að opna fyrirtækið og koma því á laggirnar, án þess að fá utanaðkomandi fjármagn. „Við þurftum að finna húsnæði og kaupa búnaðinn. Fengum mann í Bandaríkjunum til að prófa að bræða fyrir okkur hraunið. Sem tókst enda hann góður vísindamaður. Áskorunin var hins vegar hvernig það væri hægt að bræða fullkomið hraun á fyrirfram ákveðnum tímum,“ segir Júlíus. Í stuttu máli má segja að Lava Show felist í að endurskapa aðstæður eldgoss með því að bræða alvöru hraun upp í 1100°C og hella því inn í sýningarsal fullan af fólki. En var þetta ekki dýrt? „Jú við lögðum allt undir. Yfirdrátturinn í botni, peningar sem styrkir og fjármagn frá vinum og vandamönnum plús styrkur frá Rannís. En við áttum ekki krónu og vorum margoft við það að fara á hausinn,“ segir Ragnhildur en hlær þó þegar hún rifjar upp þennan tíma. Því þótt hann hafi vissulega reynt á fylgja upphafstímanum svo margar góðar sögur. „Segðu henni frá slökkviliðsstjóranum,“ segir Ragnhildur í hálfgerðu hláturskasti og kýlir með olnboganum í mann sinn. Júlíus byrjar söguna á því að segja að þetta hún sé nú reyndar frekar vandræðaleg. Því þegar hjónin voru við það að opna í Vík, staðsett með smá hluta af húsnæði í gamla kaupfélagshúsinu þar, var komið að því að tala við slökkviliðsstjórann í bænum. „Sko leyfismálin fyrir opnun voru bara algjört rugl. Því alltaf þegar við vorum að reyna að spyrja þessar stofnanir hvort við mættum gera þetta eða hitt, var svarið alltaf að enginn vissi neitt. Við yrðum bara að prófa og sjá síðan til hvað myndi gerast,“ segir Júlíus svona til útskýringar á því samtali sem hann síðar átti við slökkviliðsstjórann. „En auðvitað kom að því að ég þurfti að tala við slökkviliðsstjórann og láta vita hvað við værum að fara að gera. Sem sagði: „Já ég hef heyrt af ykkur. Er þetta ekki eitthvað hraunasafn?“ Þannig að ég fékk fyrir hjartað en varð að útskýra að þetta væri ekki alveg svona einfalt. Við værum að fara að bræða hraun í 1100 -1200°C gráðu hita og láta það síðan renna í gegnum holu á veggnum og þaðan…..“ Sagan heldur áfram og ekki laust við að vera nokkuð spaugileg. Því varla telst starfsemi Lava Show í anda einaldra brunavarna. Hvað þá staðsett í gömlu kaupfélagshúsi úti á landi. En sagan er um leið gott dæmi um hvers konar áskoranir frumkvöðlar standa frammi fyrir. Því nýsköpun er jú óþekkt fyrirbæri þegar hún birtist okkur hinum fyrst. „En við erum fínir vinir í dag,“ segir Júlíus. Á mynd má sjá þegar Ragnhildur heldur tölu í tilefni þess að Lava Show hlaut Nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar árið 2021. Hjónin segja að fyrirtækið hefði án efa farið á hausinn ef ekki hefði verið fyrir Íslendingasumarið mikla 2020. Þá troðfylltist á allar sýningar sem bjargaði miklu því framlög ríkisisins vegna Covid voru ekki afgreidd fyrr en um haustið. Auralaus með tárin í augunum Loks kom að opnun í Vík. Stóra stundin var runnin upp. „Opnunin var miklu dýrari en hún átti að vera sem þýddi að við áttum ekki krónu til að auglýsa,“ segir Ragnhildur. „Fólk hélt að þetta væri eitthvað ljósashow. Eða einhvers konar heimildarmynd. Túristar hringdu og spurðu: „So how long is the movie?““ segir Júlíus. Opnunartíminn var samt útpældur. Því þetta ár voru 100 ár liðin frá Kötlugosi. Þess vegna er Lava Show á Vík að miklu leyti byggt á því að draga fram Kötlugosið og byggja upp smá spennu fyrir þeirri tilhugsun hvað myndi gerast ef Katla færi að gjósa á ný. Þá er upplifunin á Vík líka mjög persónuleg. Því afi Júlíusar var einn þeirra sem lifði Kötlugosið af og við hann voru tekin mörg viðtöl í elstu íslensku fjölmiðlunum. „Hann var í afréttum að smala fé við rætur Mýrdalsjökuls þegar gosið hófst,“ segir Júlíus. Fyrir utan peningaleysið og stressið fyrir opnunina voru hjónin þó alsæl. Allt gekk upp og upplifunin sem þeim hafði dreymt um að endurgera frá göngutúrnum við eldgosið á Fimmvörðuhálsi var svo sannarlega að gera sig. Hreint út sagt dásamleg sýning í alla staði segja þau stolt. Vandamálið var þó að það kom nánast enginn. Og varla króna í kassann. „Smám saman fóru túristarnir að skrifa fimm stjörnu umsagnir um okkur. Og þá sátum við bara með tárin í augunum og bara vá…. Því það sem þeir segja um okkur er svo yndisleg lesning. Að þeir hafi aldrei séð eða upplifað annað eins og svo framvegis,“ segir Ragnhildur. Og í þetta sinn er ekki laust við að Ragnhildur verði hálf meyr. Hugmyndin að Lava Show vaknaði þegar hjónin gengu að gosinu á Fimmvörðuhálsi árið 2010 en sýningar Lava Show felast í að endurskapa aðstæður eldgoss með því að bræða alvöru hraun upp í 1100°C og hella því inn í sýningarsal fullan af fólki. Íslendingarnir komu til bjargar Fyrirfram höfðu hjónin ákveðið að Ragnhildur myndi halda áfram að vinna úti og vera þannig ein fyrirvinna heimilisins. Því ekki skiluðu launin sér til Júlíusar næstum því strax. Smátt og smátt fór sýningin að spyrjast út. Og loks kom að því að útlitið varð nokkuð bjart. Því í janúar 2020 var þá þegar komið inn meira af bókunum fyrir árið heldur en höfðu raungerst allt árið á undan. „Þarna hugsuðum við bara með okkur: Þetta er komið!“ segir Ragnhildur. En álagið var mikið. Júlíus alltaf að fylgja eftir sýningunum og meira og minna staðsettur á Vík. Hún útivinnandi. Sitjandi með tölvuna á kvöldin að svæfa. Síðan kom Covid. Þar sem allt fór í strand. Ekki aðeins þurfti að loka öllu heldur einnig að endurgreiða þegar bókaða miða. „Við vorum bara að verða gjaldþrota,“ segir Ragnhildur og sjálfur útskýrir Júlíus að í apríl þetta ár hafi hann hreinlega ekki farið fram úr rúminu. Ég varð fertugur þann 11.apríl 2020. Sama dag og ströngustu reglurnar um sóttkví voru tilkynntar. Þetta var ömurlegur dagur. Við að fara á hausinn og ekki einu sinni mamma og pabbi máttu koma. Stóðu bara á lóðinni og vinkuðu syninum til hamingju með afmælið,“ segir Júlíus og veit augljóslega ekki hvort hann eigi að hlæja eða gráta þegar hann rifjar afmælisdaginn upp. Hjónin segja framlög ríkisins hafa skipt sköpum. Gallinn hafi bara verið sá að þau komu svo seint til afgreiðslu. Ekki fyrr en um haustið. „Á endanum voru það Íslendingarnir sem björguðu fyrirtækinu. Því Íslendingasumarið mikla 2020 fylltist allt og það var brjálað að gera hjá okkur allt sumarið,“ segir Ragnhildur og Júlíus bætir við: „Það voru allar sýningar troðfullar. Af Íslendingum. Sem var algjörlega nýtt fyrir okkur en þarna áttuðu Íslendingarnir sjálfir sig á því hvað þeim finnst hraunið merkileg upplifun. Ef þeir hefðu ekki komið hefðum við orðið gjaldþrota.“ Þegar hægði á um haustið komu styrkir stjórnvalda til afgreiðslu og markaðsstyrkur frá Sambandi Sunnlenskra sveitarfélaga. Samanlagt nægði þetta til að halda fyrirtækinu í rekstri næstu misserin. Hluthafar fv: Hjónin Ragnar Þórir Guðgeirsson og Hildur Árnadóttir, Birgir Örn Birgisson, Ragnhildur og Júlíus. Fjárfestirinn Birgir Örn heillaðist af Lava Show í Vík í Mýrdal þegar hann kom í óvissuferð með starfsmönnum Dominos en þá var hann forstjóri Dominos. Svo heillaður var hann að tíu dögum síðar kom hann aftur og spurði hvort þau hjónin hefðu velt fyrir sér að fá fjárfesti inn til að fjármagna frekari stækkun. Með innkomu Birgis var fjármögnun fyrir Lava Show á Granda tryggð. Starfsmaður Dominos reyndist vera fjárfestir Fyrir opnun hafði Lava Show fengið styrk frá Rannís og hlotið viðurkenningu Gulleggsins fyrir bestu viðskiptaáætlunina árið 2016. Þá hlaut Lava Show Nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar árið 2021 og alþjóðlegu nýsköpunarverðlaunin Global Win í júlí síðastliðnum. En það átti nú heldur betur ýmislegt eftir að gerast áður en kom að opnun nýs staðar í Reykjavík. Því þegar kom í ljós að heimsfaraldrinum ætlaði seint að linna, leið veturinn 2020-2021 meira og minna þannig að aðeins var opið um helgar. Eða ef pantað var fyrir hópa. Einn hópurinn sem kom var eldhress starfsmannahópur frá Dominos. Að vanda tók Júlíus á móti hópnum en tíu dögum síðar fær hann síðan símtal frá einum úr hópnum sem spurði hvort hann mætti koma aftur og taka vin með sér. „Ég var eiginlega ekki að nenna því. En Ragga bara jú jú jú þú ferð víst,“ segir Júlíus. Sem fannst nú ekki mikið til koma að vera að fara austur fyrir fjall að opna fyrir tvo viðskiptavini. Sem þó á endanum urðu sem betur fer sex. „Þar sem þeir voru bara sex tók ég mér lengri tíma í sýninguna. Fór á bakvið og svona,“ segir Júlíus. Áður en heimsókn gesta var lokið segir umræddur starfsmaður Dominos: Ég sé ekkert nema tækifæri fyrir þetta fyrirtæki. Hafið þið velt fyrir ykkur að fá fjárfesta inn í eigendahópinn til að stækka?“ Í ljós kom að umræddur maður var Birgir Örn Birgisson fjárfestir sem þá var að hætta sem forstjóri Dominos. Óvissuferðin sem hann hafði áður komið í, sat í honum og án þess að Júlíus hefði um það hugmynd, vildi hann koma aftur í Lava Show vegna þess að hann hafði áhuga á fyrirtækinu sem fjárfestingu. Til að gera langa sögu stutta fór svo að fljótlega gerðu hjónin samning við félagið EB Invest ehf. sem Birgir Örn leiðir. Fyrir í hluthafahópnum voru hjónin Ragnar Þórir Guðgeirsson og Hildur Árnadóttir, auk nokkurra smærri hluthafa. Með tilkomu EB Invest ehf. kom fjármagn til stækkunar. Fyrsti áfanginn var að opna sýningu í Reykjavík og var húsnæði á Granda fljótlega tryggt undir þá starfsemi. „Það kom í ljós strax í fyrstu samtölum var að framtíðarsýnin okkar og þeirra féll algjörlega saman. Sem er lykilatriði og ástæðan fyrir því að það var engin spurning fyrir okkur að fá hann inn,“ segir Ragnhildur. Það var mikil vinna að setja Lava Show á laggirnar í nýju og glæsilegu húsnæði á Fiskislóð 73 á Granda. Bræðsluofninn notar metangas úr lífrænum úrgangi frá Sorpu og er umframorkan nýtt til að hita upp húsnæðið. Á einni myndinni má sjá yngsta son Júlíusar og Ragnhildar, Alxeander Funa sem kallaður er Funi. Eldri synir hjónanna heita Jón Ágúst og Viktor Ingi. Ævintýrið á Granda undirbúið Næstu vikur og mánuði þjálfaði Júlíus upp starfsfólk til að sjá um sýningarnar og reksturinn á Vík. Því tíma þurfti til að undirbúa enn stærri upplifun á nýjum stað í Reykjavík. Húsnæði Icelandic Lava Show í Reykjavík eru um 700 fermetrar. Það lá því strax fyrir að öllu yrði tjaldað til fyrir stóra og mikilfengna sýningu. Sem þó er allt öðruvísi upplifun en sú sem er staðsett á Vík. „Þetta var rugl mikil vinna,“ segir Júlíus um mánuðina sem á eftir komu. Upphafleg opnun átti að vera vorið 2022 en margt setti strik í reikninginn. Til dæmis stríðið í Úkraínu enda sömu birgjar að þjónusta þau með nýjan ofn og eru að þjónusta þjóðir í stríði. Ál og stál. Þá var einnig lagt upp með að fara nýja leið með bræðsluofninn. Sem er keyrður áfram af metangasi í samstarfi við Sorpu. Þetta þýðir að lífrænn úrgangur er notaður til að keyra bræðsluofninn upp í 1100°C. Þá er umfram orkan notuð til að kynda upp húsið og segja hjónin því starfsemina í mínus þegar kemur að kolefnissporinu. Þegar ljóst var að ekki yrði af opnun síðastliðið vor var stefnt að nýjum opnunardegi: 1.október árið 2022. Undir það síðasta var unnið dag og nótt. Nýi bræðsluofninn var kominn til landsins en hann þurfti að prufukeyra margsinnis þannig að allt myndi ganga upp samkvæmt áætlunum þegar sýningarnar hæfust. Aðfaranótt 20.september kom skellurinn: Eldur í þaki húsnæðisins. Júlíus hringdi í mig þarna um nóttina. Auðvitað í algjöru uppnámi. Og sagði bara „Það er kviknað í….“ Og stuttu síðar „Slökkviliðið er komið, ég ætla að segja þeim að dæla ekki vatni, þá verður sprenging….,““ segir Ragnhildur þegar hún rifjar upp umrædda nótt. Sem er eins og spennusaga að heyra lýsingu á. Þar sem Júlíus var við annan mann að gera prófanir en fer að finna einhverja undarlega lykt. Lyktin varð til þess að hann hringdi í slökkviliðið. Sem hann hafði einmitt verið í svo miklu sambandi við í aðdraganda opnunarinnar. Því í þetta sinn vissu allir út á hvað Lava Show gekk. Betur fór á en horfðist og segja hjónin að eftir á að hyggja megi svo sem segja að eldsupptökin hafi verið eins og dýr öryggisprófun. Því allt sem sneri að öryggi í búnaðinum stóðst en nýjan skorstein þurfti á húsið og lagfæringar á þakinu. „Þá kom sér vel að hafa verið búin að safna að okkur hóp af frábæru fólki. Enda komu mennirnir sem voru að vinna að húsnæðinu óumbeðnir strax um morguninn eftir að fréttirnar birtust í fjölmiðlum og hreinlega unnu að lokun þaksins fram á kvöld. Til að verja húsnæðið frá frekari skemmdum þegar það færi að rigna,“ segir Júlíus og ljóst er að hjónin eru mjög þakklát fyrir allan stuðning, aðstoð og hjálp sem þau hafa fengið vegna Lava Show síðustu árin. Frá þessum mönnum og svo mörgum öðrum sem komið hafa að starfseminni með einum eða öðrum hætti. Júlíus og Ragnhildur viðurkenna að það hafi alveg reynt á þau sem hjón að hefja rekstur á sprotafyrirtæki sem fáir skildu í upphafi hvað ætlaði að gera. Þrautseigjan, áföllin, peningaleysið og fleira reyndi oft á. Í dag segjast þau stolt af því að vera enn þau sjálf; að vera enn hjón. Það sé hreinlega ekki sjálfgefið enda mikið búið að ganga á. „Erum stolt af því að vera enn við“ Það er ljóst að þótt ævintýri Lava Show sé enn rétt að hefjast, hefur margt gerst á þeim örstutta tíma sem þetta sprotafyrirtæki hefur þó verið starfrækt. Margt annað telst líka til. Því það að reka heimili og ala upp börn er líka stórt verkefni að huga að. Og jókst á álagið þann tíma sem Júlíus var meira og minna staðsettur á Vík, þar sem þau keyptu húsnæði undir hann og aðra starfsmenn. Ragnhildur og Júlíus eiga þrjá syni. Tveir eldri synirnir eru einhverfir og sá yngsti fæddist á opnunarár Lava Show á Vík. „Já það var nú enn ein vitleysan. Að bæta við barni ofan á allt annað,“ segir Júlíus en hlýtur fyrir vikið fast olnbogaskot frá eiginkonunni og er auðvitað fljótur að bæta við að auðvitað hafi það verið hreint út sagt dásamlegt að eignast enn einn soninn. En tekur svona frumkvöðlastarfsemi ekki á ykkur líka persónulega. Til dæmis sem hjón? „Jú algjörlega. Og ég verð bara að segja að við erum stolt af því að vera enn við sjálf. Að vera enn hjón eftir allt þetta, það er hreinlega ekkert sjálfgefið. Þrautseigjan, allur þessi tími sem hefur farið í þetta, öll áföllin sem hafa komið upp og svo framvegis,“ segir Ragnhildur og Júlíus kinkar kolli. „Það fylgja því ákveðnir gallar að vera hjón í sprotarekstri. Því svona rekstur er í raun eins og viðbótar barn. Við erum alltaf að hugsa um það þótt vinnan hafi meira verið á Júlíusi því ég er að starfa annars staðar. En þetta er barn okkar beggja,“ segir Ragnhildur en bætir við: „En við erum líka dugleg að peppa hvort annað upp. Oft hefur það verið að ég er kannski að gefast upp og niðurlút, þá peppar hann mig upp. Og öfugt.“ „Við búum líka að ólíkum styrkleikum og höfum nýtt okkur það,“ segir Júlíus og segja hjónin að það sé ekki síst fyrir þær sakir að hafa lært vel inn á styrkleika hvors annars þegar þau voru námsfélagar í háskólanum. Að vinna í svona verkefni með þeim sem maður elskar mest er svo ótrúlega dýrmætt. Það eitt að geta fagnað öllum sigrum saman er æðislegt. Við höfum líka alltaf gert okkur grein fyrir því að við erum með eitthvað einstakt í höndunum. Þetta er bara svo gaman,“ segir Ragnhildur. Nýsköpun Ferðamennska á Íslandi Faraldur kórónuveiru (COVID-19) Tækni Mest lesið Fólk eigi ekki að greiða fyrir að nota peninginn sinn Neytendur Forstjórinn sem saumar þjóðbúninginn öll mánudagskvöld Atvinnulíf Loðnubrestur hefur gríðarleg áhrif á samfélagið Viðskipti innlent Þróaði app til að hjálpa fólki í meðferð þegar kerfið brást Neytendur Andlega uppsögnin: „Þetta er ekki sonur minn sko…“ Atvinnulíf Segja verðið betra en í Krónunni, Bónus og Costco Neytendur Einkaþotufyrirtæki með skrautlega sögu svipt starfsleyfi vegna öryggismála Viðskipti innlent Innkalla brauð vegna brots úr peru Neytendur „Eins og stundum vanti hvatann hjá stofnunum til þess að vilja hagræða“ Atvinnulíf Loðnumælingar gefa ekki ástæðu til bjartsýni Viðskipti innlent Fleiri fréttir „Fullt af íslenskum fyrirtækjum í miklum vandræðum með þetta“ Forstjórinn sem saumar þjóðbúninginn öll mánudagskvöld Andlega uppsögnin: „Þetta er ekki sonur minn sko…“ „Eins og stundum vanti hvatann hjá stofnunum til þess að vilja hagræða“ „Svarið er einfaldlega: Svona höfum við alltaf gert þetta“ „Oft velt því fyrir mér: Hvenær munu þessar sögusagnir hætta?“ Sögurnar í fyrra: Því lífið er svo miklu meira en bara vinnan „Ætla ekki að ljúga því að ég sé einhver ofurhress morguntýpa“ „Þú vinnur eftir hentugleika á þeim staðsetningum sem henta“ „Helst eldri stjórnendur sem vilja fá fólkið til baka“ „Oft velur maður frekar það sem maður er góður í“ Verkefnin í fyrra: Stelpupabbar, forðunarhegðun, mismunun og áherslan á jákvæðnina „Hef einstaklega gaman af þessari stanslausu niðurlægingu“ Sjálfstætt starfandi fjölgar: Fljótlegt, einfalt og oft ódýrara Sjálfstætt starfandi fjölgar: „Hvað gerist þegar forstjórinn veikist?“ Mannauðsmál: „Enn of mikil tilhneiging til að taka ekki á málum“ „Þá hugsuðu menn: Fínt, fáum konurnar í þessi störf“ „Ásta mín, ef þú segir nei við þessu tilboði þá rek ég þig“ Kaffispjallið '24: Þar sem jafnvel dýpstu leyndarmálin eru afhjúpuð... Að kúpla okkur frá vinnu um jólin Grýlan sem segir vekjaranum að grjóthalda kjafti Einföld leið til að nýta hugmyndavinnu oftar „Ég spyr: Er í lagi að grípa í rass og þukla á brjóstum?“ Sterkasti fasteignasali landsins: Að verða pabbi breytti öllu „Tek góða bæn, þakka fyrir daginn og sofna á núll einni“ Hittust á stefnumótaappi og blása nú lífi í týndar sögur Skemmtilegir úlpustrákar: Vinir sem urðu viðskipta-vinir „Ég var alveg ákveðin í því að verða bankakona“ Fer í pyntingar með eiginkonunni tvo morgna í viku Bryndís tekur við af Dagmar hjá Austurbrú Sjá meira
Lava Show opnaði í Vík í Mýrdal árið 2018 en á dögunum í Fiskislóð á Granda. „Það komu alveg tímar í upphafi þar sem við spurðum okkur „Hvað í andskotanum erum við búin að koma okkur út í?“ En þá vorum við auðvitað komin svo djúpt í þetta,“ segir Ragnhildur og skelli hlær. „Já, já, þetta var auðvitað bara svona No turning back staða,“ botnar Júlíus. Saga stofnenda Lava Show er mögnuð. Skemmtileg. Ótrúleg. Enda ein þessara dásamlegu frásagna um nýsköpun. Sem er svo miklu meiri og flóknari en margur heldur. Þrautseigjan. Þolinmæðin. Hugsjónin. Erfiðleikarnir. Peppið. Áskoranirnar sem taka svo mikið á. Í spjallinu við þau Ragnhildi og Júlíus er oft skellt upp úr. Hlegið. Enda svo margt spaugilegt að rifja upp. Svona eftir á…. En öllu gamni fylgir alvara og svo má með sanni segja að eigi við um Lava Show. Sem jú, nú þegar er á tveimur stöðum á Íslandi. En mun eflaust opna á fleiri stöðum í heiminum fyrr en varir. Við skulum heyra söguna á bakvið fyrirtækið. Það er stutt í hláturinn hjá þeim hjónum þegar spjallað er. Ekki síst þegar að rifjað er upp misheppnaðar viðreynslur Júlíusar við Ragnhildi, sem hreinlega virtist aldrei taka eftir honum. En það er líka oft hlegið þegar atvik og tímabil eru rifjuð upp frá upphafstíma rekstursins. Sem þó reyndi á og var oft á tíðum mjög erfiður tími. „Mér finnst ég kannast svo við þig…“ Frá því að Lava Show opnaði í Vík árið 2018 hafa hjónin oft sagt frá því hvernig hugmyndin vaknaði árið 2010 þegar þau gengu upp að eldgosinu á Fimmvörðuhálsi. Og langaði að endurgera þá upplifun. Ragnhildur og Júlíus eru samt bara eins og hver önnur hjón. Voru bæði í starfi, að ala upp börn og byggja upp heimili. Búin í námi erlendis þar sem Ragnhildur lauk meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun en Júlíus meistaragráðu í frumkvöðlafræðum. Sem hljómar reyndar frekar vel, svona með tilliti til þess að hraunbræðsla Lava Show er íslensk nýsköpun og því sú eina sinnar tegundar í heiminum. „Nei mér fannst ekkert varið í þetta,“ segir Júlíus þá um námið. „Ragga vildi bara endilega fara í nám til útlanda og þá var ekkert annað fyrir mig en að gera það líka,“ en bætir við að honum hafi fundist námið ganga heldur mikið út á að tala bara um hvað aðrir hefðu gert. Enda erfitt að kenna nýsköpun. Áður en Ragnhildur og Júlíus urðu par, voru þau góðir námsfélagar í Háskólanum í Reykjavík. Sem er reyndar frekar vandræðaleg upprifjun fyrir Júlíus. Hvers vegna? „Ragga var að vinna á auglýsingastofu sem ég heimsótti oft sem sendill. Alltaf með derhúfu. Eitt sinn var ég með félögum mínum á bar og sá Röggu sitja ein við barinn. Ég tilkynnti félögunum að ég ætlaði að taka konuna tali. Enda var hún búin að heilsa mér sextíu sinnum þetta sumar því þetta voru alls sextíu skipti sem ég fór á auglýsingastofuna,“ segir Júlíus en bætir við: En þetta var hrikalega misheppnað hjá mér. Því ég kom með einverja pikkup línu sem átti að vera djók en Ragga fattaði ekki einu sinni hver ég var og stórmóðgaðist.“ Til að bæta gráu ofan á svart var Ragga síðan fyrsta manneskjan sem Júlíus sá þegar hann byrjaði í námi í HR. Og enn versnaði staðan. „Einn daginn hjálpaði ég henni að leysa úr einhverju stærðfræðiverkefni. Sem var rosalega vandræðalegt líka því ég fattaði að hún var ekki heldur að muna eftir mér af barnum.“ Og enn varð það svartara. „Síðan urðum við mjög góðir námsfélagar og lærðum oft saman. Sem gekk vel og allt það nema bara að Ragga var alltaf að segja við mig ,,Mér finnst ég kannast svo við þig…,“ segir Júlíus sem á endanum sagði Ragnhildi að hún hefði heilsað honum alls sextíu sinnum um sumarið og hitt hann á bar um haustið. En nú eru þau hjón. Ragnhildur starfar hjá Controlant og hefur verið mjög viðloðandi veigamiklum störfum í tæknigeiranum. Áður en þau opnuðu Lava Show í Vík, starfaði Júlíus við sölu- og markaðsmál hjá 365 miðlum (nú Sýn hf.), en þangað hafði hann flust með símafyrirtækinu TAL þegar það var keypt af 365 miðlum. Lava Show í Vík í Mýrdal er allt öðruvísi upplifun en Lava Show í Reykjavík. Í Vík, þar sem Lava Show er til húsa í gamla kaupfélagshúsinu, er lögð áhersla á Kötlugosið 1918 og stemning byggð upp í kringum það. Í Reykjavík er Lava Show í 700 fermetra húsnæði með alveg nýja sýningu sem hjónin segja allt aðra upplifun en þá sem er fyrir austan. Samtalið við slökkviliðsstjórann Eitt það merkilega við upphafið í sögu Lava Show er að skötuhjúunum hafi tekist að opna fyrirtækið og koma því á laggirnar, án þess að fá utanaðkomandi fjármagn. „Við þurftum að finna húsnæði og kaupa búnaðinn. Fengum mann í Bandaríkjunum til að prófa að bræða fyrir okkur hraunið. Sem tókst enda hann góður vísindamaður. Áskorunin var hins vegar hvernig það væri hægt að bræða fullkomið hraun á fyrirfram ákveðnum tímum,“ segir Júlíus. Í stuttu máli má segja að Lava Show felist í að endurskapa aðstæður eldgoss með því að bræða alvöru hraun upp í 1100°C og hella því inn í sýningarsal fullan af fólki. En var þetta ekki dýrt? „Jú við lögðum allt undir. Yfirdrátturinn í botni, peningar sem styrkir og fjármagn frá vinum og vandamönnum plús styrkur frá Rannís. En við áttum ekki krónu og vorum margoft við það að fara á hausinn,“ segir Ragnhildur en hlær þó þegar hún rifjar upp þennan tíma. Því þótt hann hafi vissulega reynt á fylgja upphafstímanum svo margar góðar sögur. „Segðu henni frá slökkviliðsstjóranum,“ segir Ragnhildur í hálfgerðu hláturskasti og kýlir með olnboganum í mann sinn. Júlíus byrjar söguna á því að segja að þetta hún sé nú reyndar frekar vandræðaleg. Því þegar hjónin voru við það að opna í Vík, staðsett með smá hluta af húsnæði í gamla kaupfélagshúsinu þar, var komið að því að tala við slökkviliðsstjórann í bænum. „Sko leyfismálin fyrir opnun voru bara algjört rugl. Því alltaf þegar við vorum að reyna að spyrja þessar stofnanir hvort við mættum gera þetta eða hitt, var svarið alltaf að enginn vissi neitt. Við yrðum bara að prófa og sjá síðan til hvað myndi gerast,“ segir Júlíus svona til útskýringar á því samtali sem hann síðar átti við slökkviliðsstjórann. „En auðvitað kom að því að ég þurfti að tala við slökkviliðsstjórann og láta vita hvað við værum að fara að gera. Sem sagði: „Já ég hef heyrt af ykkur. Er þetta ekki eitthvað hraunasafn?“ Þannig að ég fékk fyrir hjartað en varð að útskýra að þetta væri ekki alveg svona einfalt. Við værum að fara að bræða hraun í 1100 -1200°C gráðu hita og láta það síðan renna í gegnum holu á veggnum og þaðan…..“ Sagan heldur áfram og ekki laust við að vera nokkuð spaugileg. Því varla telst starfsemi Lava Show í anda einaldra brunavarna. Hvað þá staðsett í gömlu kaupfélagshúsi úti á landi. En sagan er um leið gott dæmi um hvers konar áskoranir frumkvöðlar standa frammi fyrir. Því nýsköpun er jú óþekkt fyrirbæri þegar hún birtist okkur hinum fyrst. „En við erum fínir vinir í dag,“ segir Júlíus. Á mynd má sjá þegar Ragnhildur heldur tölu í tilefni þess að Lava Show hlaut Nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar árið 2021. Hjónin segja að fyrirtækið hefði án efa farið á hausinn ef ekki hefði verið fyrir Íslendingasumarið mikla 2020. Þá troðfylltist á allar sýningar sem bjargaði miklu því framlög ríkisisins vegna Covid voru ekki afgreidd fyrr en um haustið. Auralaus með tárin í augunum Loks kom að opnun í Vík. Stóra stundin var runnin upp. „Opnunin var miklu dýrari en hún átti að vera sem þýddi að við áttum ekki krónu til að auglýsa,“ segir Ragnhildur. „Fólk hélt að þetta væri eitthvað ljósashow. Eða einhvers konar heimildarmynd. Túristar hringdu og spurðu: „So how long is the movie?““ segir Júlíus. Opnunartíminn var samt útpældur. Því þetta ár voru 100 ár liðin frá Kötlugosi. Þess vegna er Lava Show á Vík að miklu leyti byggt á því að draga fram Kötlugosið og byggja upp smá spennu fyrir þeirri tilhugsun hvað myndi gerast ef Katla færi að gjósa á ný. Þá er upplifunin á Vík líka mjög persónuleg. Því afi Júlíusar var einn þeirra sem lifði Kötlugosið af og við hann voru tekin mörg viðtöl í elstu íslensku fjölmiðlunum. „Hann var í afréttum að smala fé við rætur Mýrdalsjökuls þegar gosið hófst,“ segir Júlíus. Fyrir utan peningaleysið og stressið fyrir opnunina voru hjónin þó alsæl. Allt gekk upp og upplifunin sem þeim hafði dreymt um að endurgera frá göngutúrnum við eldgosið á Fimmvörðuhálsi var svo sannarlega að gera sig. Hreint út sagt dásamleg sýning í alla staði segja þau stolt. Vandamálið var þó að það kom nánast enginn. Og varla króna í kassann. „Smám saman fóru túristarnir að skrifa fimm stjörnu umsagnir um okkur. Og þá sátum við bara með tárin í augunum og bara vá…. Því það sem þeir segja um okkur er svo yndisleg lesning. Að þeir hafi aldrei séð eða upplifað annað eins og svo framvegis,“ segir Ragnhildur. Og í þetta sinn er ekki laust við að Ragnhildur verði hálf meyr. Hugmyndin að Lava Show vaknaði þegar hjónin gengu að gosinu á Fimmvörðuhálsi árið 2010 en sýningar Lava Show felast í að endurskapa aðstæður eldgoss með því að bræða alvöru hraun upp í 1100°C og hella því inn í sýningarsal fullan af fólki. Íslendingarnir komu til bjargar Fyrirfram höfðu hjónin ákveðið að Ragnhildur myndi halda áfram að vinna úti og vera þannig ein fyrirvinna heimilisins. Því ekki skiluðu launin sér til Júlíusar næstum því strax. Smátt og smátt fór sýningin að spyrjast út. Og loks kom að því að útlitið varð nokkuð bjart. Því í janúar 2020 var þá þegar komið inn meira af bókunum fyrir árið heldur en höfðu raungerst allt árið á undan. „Þarna hugsuðum við bara með okkur: Þetta er komið!“ segir Ragnhildur. En álagið var mikið. Júlíus alltaf að fylgja eftir sýningunum og meira og minna staðsettur á Vík. Hún útivinnandi. Sitjandi með tölvuna á kvöldin að svæfa. Síðan kom Covid. Þar sem allt fór í strand. Ekki aðeins þurfti að loka öllu heldur einnig að endurgreiða þegar bókaða miða. „Við vorum bara að verða gjaldþrota,“ segir Ragnhildur og sjálfur útskýrir Júlíus að í apríl þetta ár hafi hann hreinlega ekki farið fram úr rúminu. Ég varð fertugur þann 11.apríl 2020. Sama dag og ströngustu reglurnar um sóttkví voru tilkynntar. Þetta var ömurlegur dagur. Við að fara á hausinn og ekki einu sinni mamma og pabbi máttu koma. Stóðu bara á lóðinni og vinkuðu syninum til hamingju með afmælið,“ segir Júlíus og veit augljóslega ekki hvort hann eigi að hlæja eða gráta þegar hann rifjar afmælisdaginn upp. Hjónin segja framlög ríkisins hafa skipt sköpum. Gallinn hafi bara verið sá að þau komu svo seint til afgreiðslu. Ekki fyrr en um haustið. „Á endanum voru það Íslendingarnir sem björguðu fyrirtækinu. Því Íslendingasumarið mikla 2020 fylltist allt og það var brjálað að gera hjá okkur allt sumarið,“ segir Ragnhildur og Júlíus bætir við: „Það voru allar sýningar troðfullar. Af Íslendingum. Sem var algjörlega nýtt fyrir okkur en þarna áttuðu Íslendingarnir sjálfir sig á því hvað þeim finnst hraunið merkileg upplifun. Ef þeir hefðu ekki komið hefðum við orðið gjaldþrota.“ Þegar hægði á um haustið komu styrkir stjórnvalda til afgreiðslu og markaðsstyrkur frá Sambandi Sunnlenskra sveitarfélaga. Samanlagt nægði þetta til að halda fyrirtækinu í rekstri næstu misserin. Hluthafar fv: Hjónin Ragnar Þórir Guðgeirsson og Hildur Árnadóttir, Birgir Örn Birgisson, Ragnhildur og Júlíus. Fjárfestirinn Birgir Örn heillaðist af Lava Show í Vík í Mýrdal þegar hann kom í óvissuferð með starfsmönnum Dominos en þá var hann forstjóri Dominos. Svo heillaður var hann að tíu dögum síðar kom hann aftur og spurði hvort þau hjónin hefðu velt fyrir sér að fá fjárfesti inn til að fjármagna frekari stækkun. Með innkomu Birgis var fjármögnun fyrir Lava Show á Granda tryggð. Starfsmaður Dominos reyndist vera fjárfestir Fyrir opnun hafði Lava Show fengið styrk frá Rannís og hlotið viðurkenningu Gulleggsins fyrir bestu viðskiptaáætlunina árið 2016. Þá hlaut Lava Show Nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar árið 2021 og alþjóðlegu nýsköpunarverðlaunin Global Win í júlí síðastliðnum. En það átti nú heldur betur ýmislegt eftir að gerast áður en kom að opnun nýs staðar í Reykjavík. Því þegar kom í ljós að heimsfaraldrinum ætlaði seint að linna, leið veturinn 2020-2021 meira og minna þannig að aðeins var opið um helgar. Eða ef pantað var fyrir hópa. Einn hópurinn sem kom var eldhress starfsmannahópur frá Dominos. Að vanda tók Júlíus á móti hópnum en tíu dögum síðar fær hann síðan símtal frá einum úr hópnum sem spurði hvort hann mætti koma aftur og taka vin með sér. „Ég var eiginlega ekki að nenna því. En Ragga bara jú jú jú þú ferð víst,“ segir Júlíus. Sem fannst nú ekki mikið til koma að vera að fara austur fyrir fjall að opna fyrir tvo viðskiptavini. Sem þó á endanum urðu sem betur fer sex. „Þar sem þeir voru bara sex tók ég mér lengri tíma í sýninguna. Fór á bakvið og svona,“ segir Júlíus. Áður en heimsókn gesta var lokið segir umræddur starfsmaður Dominos: Ég sé ekkert nema tækifæri fyrir þetta fyrirtæki. Hafið þið velt fyrir ykkur að fá fjárfesta inn í eigendahópinn til að stækka?“ Í ljós kom að umræddur maður var Birgir Örn Birgisson fjárfestir sem þá var að hætta sem forstjóri Dominos. Óvissuferðin sem hann hafði áður komið í, sat í honum og án þess að Júlíus hefði um það hugmynd, vildi hann koma aftur í Lava Show vegna þess að hann hafði áhuga á fyrirtækinu sem fjárfestingu. Til að gera langa sögu stutta fór svo að fljótlega gerðu hjónin samning við félagið EB Invest ehf. sem Birgir Örn leiðir. Fyrir í hluthafahópnum voru hjónin Ragnar Þórir Guðgeirsson og Hildur Árnadóttir, auk nokkurra smærri hluthafa. Með tilkomu EB Invest ehf. kom fjármagn til stækkunar. Fyrsti áfanginn var að opna sýningu í Reykjavík og var húsnæði á Granda fljótlega tryggt undir þá starfsemi. „Það kom í ljós strax í fyrstu samtölum var að framtíðarsýnin okkar og þeirra féll algjörlega saman. Sem er lykilatriði og ástæðan fyrir því að það var engin spurning fyrir okkur að fá hann inn,“ segir Ragnhildur. Það var mikil vinna að setja Lava Show á laggirnar í nýju og glæsilegu húsnæði á Fiskislóð 73 á Granda. Bræðsluofninn notar metangas úr lífrænum úrgangi frá Sorpu og er umframorkan nýtt til að hita upp húsnæðið. Á einni myndinni má sjá yngsta son Júlíusar og Ragnhildar, Alxeander Funa sem kallaður er Funi. Eldri synir hjónanna heita Jón Ágúst og Viktor Ingi. Ævintýrið á Granda undirbúið Næstu vikur og mánuði þjálfaði Júlíus upp starfsfólk til að sjá um sýningarnar og reksturinn á Vík. Því tíma þurfti til að undirbúa enn stærri upplifun á nýjum stað í Reykjavík. Húsnæði Icelandic Lava Show í Reykjavík eru um 700 fermetrar. Það lá því strax fyrir að öllu yrði tjaldað til fyrir stóra og mikilfengna sýningu. Sem þó er allt öðruvísi upplifun en sú sem er staðsett á Vík. „Þetta var rugl mikil vinna,“ segir Júlíus um mánuðina sem á eftir komu. Upphafleg opnun átti að vera vorið 2022 en margt setti strik í reikninginn. Til dæmis stríðið í Úkraínu enda sömu birgjar að þjónusta þau með nýjan ofn og eru að þjónusta þjóðir í stríði. Ál og stál. Þá var einnig lagt upp með að fara nýja leið með bræðsluofninn. Sem er keyrður áfram af metangasi í samstarfi við Sorpu. Þetta þýðir að lífrænn úrgangur er notaður til að keyra bræðsluofninn upp í 1100°C. Þá er umfram orkan notuð til að kynda upp húsið og segja hjónin því starfsemina í mínus þegar kemur að kolefnissporinu. Þegar ljóst var að ekki yrði af opnun síðastliðið vor var stefnt að nýjum opnunardegi: 1.október árið 2022. Undir það síðasta var unnið dag og nótt. Nýi bræðsluofninn var kominn til landsins en hann þurfti að prufukeyra margsinnis þannig að allt myndi ganga upp samkvæmt áætlunum þegar sýningarnar hæfust. Aðfaranótt 20.september kom skellurinn: Eldur í þaki húsnæðisins. Júlíus hringdi í mig þarna um nóttina. Auðvitað í algjöru uppnámi. Og sagði bara „Það er kviknað í….“ Og stuttu síðar „Slökkviliðið er komið, ég ætla að segja þeim að dæla ekki vatni, þá verður sprenging….,““ segir Ragnhildur þegar hún rifjar upp umrædda nótt. Sem er eins og spennusaga að heyra lýsingu á. Þar sem Júlíus var við annan mann að gera prófanir en fer að finna einhverja undarlega lykt. Lyktin varð til þess að hann hringdi í slökkviliðið. Sem hann hafði einmitt verið í svo miklu sambandi við í aðdraganda opnunarinnar. Því í þetta sinn vissu allir út á hvað Lava Show gekk. Betur fór á en horfðist og segja hjónin að eftir á að hyggja megi svo sem segja að eldsupptökin hafi verið eins og dýr öryggisprófun. Því allt sem sneri að öryggi í búnaðinum stóðst en nýjan skorstein þurfti á húsið og lagfæringar á þakinu. „Þá kom sér vel að hafa verið búin að safna að okkur hóp af frábæru fólki. Enda komu mennirnir sem voru að vinna að húsnæðinu óumbeðnir strax um morguninn eftir að fréttirnar birtust í fjölmiðlum og hreinlega unnu að lokun þaksins fram á kvöld. Til að verja húsnæðið frá frekari skemmdum þegar það færi að rigna,“ segir Júlíus og ljóst er að hjónin eru mjög þakklát fyrir allan stuðning, aðstoð og hjálp sem þau hafa fengið vegna Lava Show síðustu árin. Frá þessum mönnum og svo mörgum öðrum sem komið hafa að starfseminni með einum eða öðrum hætti. Júlíus og Ragnhildur viðurkenna að það hafi alveg reynt á þau sem hjón að hefja rekstur á sprotafyrirtæki sem fáir skildu í upphafi hvað ætlaði að gera. Þrautseigjan, áföllin, peningaleysið og fleira reyndi oft á. Í dag segjast þau stolt af því að vera enn þau sjálf; að vera enn hjón. Það sé hreinlega ekki sjálfgefið enda mikið búið að ganga á. „Erum stolt af því að vera enn við“ Það er ljóst að þótt ævintýri Lava Show sé enn rétt að hefjast, hefur margt gerst á þeim örstutta tíma sem þetta sprotafyrirtæki hefur þó verið starfrækt. Margt annað telst líka til. Því það að reka heimili og ala upp börn er líka stórt verkefni að huga að. Og jókst á álagið þann tíma sem Júlíus var meira og minna staðsettur á Vík, þar sem þau keyptu húsnæði undir hann og aðra starfsmenn. Ragnhildur og Júlíus eiga þrjá syni. Tveir eldri synirnir eru einhverfir og sá yngsti fæddist á opnunarár Lava Show á Vík. „Já það var nú enn ein vitleysan. Að bæta við barni ofan á allt annað,“ segir Júlíus en hlýtur fyrir vikið fast olnbogaskot frá eiginkonunni og er auðvitað fljótur að bæta við að auðvitað hafi það verið hreint út sagt dásamlegt að eignast enn einn soninn. En tekur svona frumkvöðlastarfsemi ekki á ykkur líka persónulega. Til dæmis sem hjón? „Jú algjörlega. Og ég verð bara að segja að við erum stolt af því að vera enn við sjálf. Að vera enn hjón eftir allt þetta, það er hreinlega ekkert sjálfgefið. Þrautseigjan, allur þessi tími sem hefur farið í þetta, öll áföllin sem hafa komið upp og svo framvegis,“ segir Ragnhildur og Júlíus kinkar kolli. „Það fylgja því ákveðnir gallar að vera hjón í sprotarekstri. Því svona rekstur er í raun eins og viðbótar barn. Við erum alltaf að hugsa um það þótt vinnan hafi meira verið á Júlíusi því ég er að starfa annars staðar. En þetta er barn okkar beggja,“ segir Ragnhildur en bætir við: „En við erum líka dugleg að peppa hvort annað upp. Oft hefur það verið að ég er kannski að gefast upp og niðurlút, þá peppar hann mig upp. Og öfugt.“ „Við búum líka að ólíkum styrkleikum og höfum nýtt okkur það,“ segir Júlíus og segja hjónin að það sé ekki síst fyrir þær sakir að hafa lært vel inn á styrkleika hvors annars þegar þau voru námsfélagar í háskólanum. Að vinna í svona verkefni með þeim sem maður elskar mest er svo ótrúlega dýrmætt. Það eitt að geta fagnað öllum sigrum saman er æðislegt. Við höfum líka alltaf gert okkur grein fyrir því að við erum með eitthvað einstakt í höndunum. Þetta er bara svo gaman,“ segir Ragnhildur.
Nýsköpun Ferðamennska á Íslandi Faraldur kórónuveiru (COVID-19) Tækni Mest lesið Fólk eigi ekki að greiða fyrir að nota peninginn sinn Neytendur Forstjórinn sem saumar þjóðbúninginn öll mánudagskvöld Atvinnulíf Loðnubrestur hefur gríðarleg áhrif á samfélagið Viðskipti innlent Þróaði app til að hjálpa fólki í meðferð þegar kerfið brást Neytendur Andlega uppsögnin: „Þetta er ekki sonur minn sko…“ Atvinnulíf Segja verðið betra en í Krónunni, Bónus og Costco Neytendur Einkaþotufyrirtæki með skrautlega sögu svipt starfsleyfi vegna öryggismála Viðskipti innlent Innkalla brauð vegna brots úr peru Neytendur „Eins og stundum vanti hvatann hjá stofnunum til þess að vilja hagræða“ Atvinnulíf Loðnumælingar gefa ekki ástæðu til bjartsýni Viðskipti innlent Fleiri fréttir „Fullt af íslenskum fyrirtækjum í miklum vandræðum með þetta“ Forstjórinn sem saumar þjóðbúninginn öll mánudagskvöld Andlega uppsögnin: „Þetta er ekki sonur minn sko…“ „Eins og stundum vanti hvatann hjá stofnunum til þess að vilja hagræða“ „Svarið er einfaldlega: Svona höfum við alltaf gert þetta“ „Oft velt því fyrir mér: Hvenær munu þessar sögusagnir hætta?“ Sögurnar í fyrra: Því lífið er svo miklu meira en bara vinnan „Ætla ekki að ljúga því að ég sé einhver ofurhress morguntýpa“ „Þú vinnur eftir hentugleika á þeim staðsetningum sem henta“ „Helst eldri stjórnendur sem vilja fá fólkið til baka“ „Oft velur maður frekar það sem maður er góður í“ Verkefnin í fyrra: Stelpupabbar, forðunarhegðun, mismunun og áherslan á jákvæðnina „Hef einstaklega gaman af þessari stanslausu niðurlægingu“ Sjálfstætt starfandi fjölgar: Fljótlegt, einfalt og oft ódýrara Sjálfstætt starfandi fjölgar: „Hvað gerist þegar forstjórinn veikist?“ Mannauðsmál: „Enn of mikil tilhneiging til að taka ekki á málum“ „Þá hugsuðu menn: Fínt, fáum konurnar í þessi störf“ „Ásta mín, ef þú segir nei við þessu tilboði þá rek ég þig“ Kaffispjallið '24: Þar sem jafnvel dýpstu leyndarmálin eru afhjúpuð... Að kúpla okkur frá vinnu um jólin Grýlan sem segir vekjaranum að grjóthalda kjafti Einföld leið til að nýta hugmyndavinnu oftar „Ég spyr: Er í lagi að grípa í rass og þukla á brjóstum?“ Sterkasti fasteignasali landsins: Að verða pabbi breytti öllu „Tek góða bæn, þakka fyrir daginn og sofna á núll einni“ Hittust á stefnumótaappi og blása nú lífi í týndar sögur Skemmtilegir úlpustrákar: Vinir sem urðu viðskipta-vinir „Ég var alveg ákveðin í því að verða bankakona“ Fer í pyntingar með eiginkonunni tvo morgna í viku Bryndís tekur við af Dagmar hjá Austurbrú Sjá meira