Það er Morgunblaðið sem greinir frá.
Í frétt blaðsins segir að framlög til heilbrigðismála muni hækka um 12 milljarða á næsta ári, þar af 4,3 milljarðar til Landspítala, Sjúkrahússins á Akureyri og heilsugæslunnar. Stefnt er að því að vinna niður biðlista og þá er ákalli eftir auknu fjármagni vegna nýrra lyfja svarað.
Fjárframlög til löggæslunnar munu aukast um 2,5 milljarða króna en þar af fara 1,4 milljarðar til lögreglunnar. Til stendur að efla lögregluna og aðgerðir hennar gegn skipulagðri brotastarfsemi.
Að auki verða fjárframlög til Landhelgisgæslunnar aukin.
„Það er mikilvægt að fólk sjái og viti að við látum ekki sitja við orðið tóm hvað varðar löggæslu og öryggi borgaranna,“ hefur Morgunblaðið eftir Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra.
Framlög til félags-, húsnæðis- og tryggingamála mun hækka um 3,7 milljarða en þar af á að verja 1,1 milljarði í að hækka frítekjumark atvinnutekna öryrkja í 200 þúsund krónur á mánuði.
Útlit er fyrir að tekjur ríkissjóðs verði 24 milljörðum hærri á næsta ári en áætlað var.