Foreldrar Miley Cyrus, þau Tish og Billy Ray, skildu í apríl á þessu ári eftir tuttugu og átta ára hjónaband. Þau höfðu sótt um skilnað tvisvar áður og ekki búið undir sama þaki í tvö ár.
Þakkar tímasetningu guðs
Nú hefur Tish hins vegar fundið ástina á ný í örmum leikarans Dominic Purcell. Parið opinberaði samband sitt með myndbirtingu á Instagram fyrir stuttu.
Á myndinni mátti sjá parið í faðmlögum. Stuttu seinna setti Tish inn textann: „Þegar kemur að tímasetningu guðs, mun allt vera í lagi“. Þá bætti hún því við að stundum hefði sér þótt erfitt að trúa þessari fullyrðingu en þetta væri svo sannarlega satt.

Bæði komin í ný sambönd
Tish virðist því vera alsæl með nýja kærastann. Tish er 55 ára gömul og Dominic þremur árum yngri. Hann sló í gegn í þáttunum Prison Break, The Flash og Legends of Tomorrow. Þá fór hann með hlutverk Dracula í kvikmyndinni Blade: Trinity.
Eins og fram hefur komið á Vísi er Billy Ray einnig kominn í nýtt samband. Hann er trúlofaður ungu söngkonunni Firerose. Samband þeirra hefur vakið mikla athygli sökum aldursmunar á parinu. Billy Ray er sextíu og eins árs gamall. Nákvæmur aldur Firerose er ókunnur en hún er talin vera á þrítugsaldri.