„Þetta er í raun og veru bara niðurstaða rýnihóps sem kom saman og fór yfir svör neytenda um það hvað þeir vildu. Rýnihópur hefur þrjár forsendur: Að gjöfin sé vinsæl meðal neytenda, að hún seljist vel og falli vel að tíðarandanum,“ segir Sigrún Ösp í samtali við fréttastofu.

„Eftir umræður rýnihóps var ákveðinn samhljómur sem gaf til kynna að við værum þreytt á böli undanfarinna ára og hefðum uppsafnaða þörf fyrir jólasamveru og skemmtun. Þá fannst okkur fátt meira skemmtilegt en að koma saman og spila og ræða jólabækurnar. Þetta var þess vegna bæði valið gjöf ársins,“ segir Sigrún.
Að auki segir Sigrún að umræða í samfélaginu um stöðu íslenskrar tungu hafi verið ofarlega í huga fólks þegar þetta var valið, enda er nú kapp lagt á að tryggja stöðu tungumálsins. Þar leika bækur auðvitað lykilhlutverk og hví ekki líka spil?
Ranglega var hermt í Íslandi í dag í gærkvöldi að hitablástursofn eða „Air Fryer“ hafi verið valinn gjöf ársins hjá Rannsóknarsetri verslunarinnar í ár og stafar sá misskilningur af því að gjöfin var sannarlega valin jólagjöf ársins hjá raftækjaversluninni Elko. Er beðist velvirðingar á þessu. Að sögn Sigrúnar Aspar var þó nokkur fjöldi neytenda sem svaraði því í opinni spurningu í gjafakönnun í ár að Air Fryer væri á óskalistanum, en tækið var vinsælasta söluvaran í fyrra.