Í tilkynningu kemur fram að Salóme starfaði áður sem framkvæmdastjóri Klak - Icelandic Startups árin 2014 til 2021. Þar áður var hún forstöðumaður Opna háskólans í HR. Salóme hefur víðtæka reynslu af ýmsum nefndar og stjórnarstörfum í íslensku atvinnulífi og situr m.a. í stjórn Eyrir Ventures og Viðskiptaráði Íslands. Salóme er með BSc próf í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og lauk AMP stjórnendanámi við IESE í Barcelona árið 2019.
„Það er spennandi áskorun að ganga til liðs við reynslumikið teymi PayAnalytics á þessum tímapunkti. Fyrirtækið hefur náð ótrúlegum árangri á skömmum tíma og framundan eru gríðarleg tækifæri til frekari sóknar um allan heim. Ég hlakka til að leggja mín lóð á vogarskálarnar,“ segir Salóme í áðurnefndri tilkynningu.
PayAnalytics er nafn fyrirtækisins og hugbúnaðar sem á að gera stjórnendum kleift að framkvæma launagreiningar og ráðast á launabil kynjanna með aðgerðaráætlun og kostnaðargreiningu. Samkvæmt tilkynningunni sýnir hugbúnaðurinn hvaða áhrif nýráðningar, tilfærslur í starfi og launahækkanir hafa á launabilið og eykur skilning á launaskipan fyrirtækisins.
Hugbúnaður er í boði á sjö tungumálum og er notaður í 75 löndum víða um heim, þar á meðal í Evrópu, Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu og Kína og tryggir nú þegar sanngirni í kjörum hjá um 30 prósent af þeim sem starfa á íslenskum vinnumarkaði. Fyrirtækið er með starfsstöðvar í Grósku ásamt skrifstofum í þremur löndum utan Íslands.
„Stóra verkefnið er að tryggja áframhaldandi vöxt PayAnalytics á heimsvísu. Það felur meðal annars í sér verkefni sem snúa að öflun nýrra viðskiptatækifæra, upplifun viðskiptavina, þróun þjónustunnar og markaðssetningu á lausn fyrirtækisins. Salóme hefur breiða reynslu á sviði stjórnunar, sölu og markaðsmála auk þess sem reynsla hennar af alþjóðlegum verkefnum og öflugt tengslanet mun nýtast fyrirtækinu vel við frekari uppbyggingu,“ segir Guðrún Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar.