Það var á tíunda tímanum í morgun sem uppsjávarfiskiskipið Víkingur Ak lagðist að bryggju á Vopnafirði með um sjöhundruð tonn af loðnu sem veiddust úti fyrir Norðurlandi, austur af Kolbeinseyjarhrygg.

Magnús Þór Róbertsson, rekstrarstjóri Brims á Vopnafirði, segir að loðnan líti mjög vel út. Hún sé ágætlega stór og vonast hann til að hægt verði að frysta megnið af henni til manneldis en eitthvað af henni muni þó fara til fiskimjölsframleiðslu.

Þessi byrjun loðnuvertíðar er óvenju snemma þennan veturinn miðað við undanfarin ár. Þannig rifjar Magnús Þór upp að áratugur er liðinn frá því loðnuvinnsla hófst síðast á Vopnafirði fyrir jól en það var árið 2012. Segir Magnús þetta sannkallaðan jólabónus, bæði fyrir starfsfólkið og fyrirtækið.

Brim er langstærsta fyrirtækið á Vopnafirði með 66 starfsmenn. Þar af áætlar Magnús að 15 til 18 manns vinni við loðnufrystinguna og fjórir í bræðslunni.
Magnús segir þó óvíst hversu samfelld vinnslan verður núna í desember en annað skip Brims, Venus, er á siglingu úti fyrir Norðausturlandi að skyggnast eftir loðnu og stefnir á sömu slóðir og fyrsta loðnan veiddist um helgina.

Þá var skip Síldarvinnslunnar, Beitir NK, á leið til Neskaupstaðar með 1.240 tonn af loðnu, að sögn Sturlu Þórðarsonar skipstjóra, og áætlaði hann fyrir hádegi að koma inn til Norðfjarðar um eittleytið. Sturla gerir ráð fyrir að loðnan fari til bræðslu.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2 um fyrstu loðnufarma vertíðarinnar: