Það er hin stórglæsilega ástralska leikkona Margot Robbie sem fer með hlutverk dúkkunnar heimsfrægu. Þá mun enginn annar en hjartaknúsarinn Ryan Gosling fara með hlutverk karldúkkunnar Ken.
Til hefur staðið að gera Hollywood kvikmynd um Barbie í mörg ár og nú hefur kvikmyndaframleiðandinn Warner Bros riðið á vaðið. Ótal teiknimyndir hafa verið gerðar um dúkkuna, en þetta er fyrsta leikna myndin.
Sjá: Margot Robbie og Ryan Gosling verða Barbie og Ken


Breytti landslaginu
Leikstjóri myndarinnar er Greta Gerwig, en hún er einnig handritshöfundur ásamt eiginmanni sínum Noah Baumbach. Meðal leikara í myndinni eru Issa Rae, Will Ferrel, Kate McKinnon, Simu Liu, Michael Cera og America Ferrera.
Í sýnishorninu má heyra rödd leikkonunnar Helen Mirren sem fer með hlutverk sögumanns. Í sýnishorninu lýsir hún því hvernig Barbie breytti landslaginu þegar kemur að leikföngum.
„Alveg síðan fyrsta litla stúlka heims fæddist hafa verið til dúkkur. En þessar dúkkur voru alltaf lítil börn, þangað til...,“ segir í sýnishorninu sem má sjá hér fyrir neðan.