Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur nú staðfest að Selenskí hafi þegið boð um að ávarpa Bandaríkjaþing síðar í dag en áður en það gerist heimsækir hann forsetann í Hvíta húsinu.
Heimsóknin virðist eiga sér skamman fyrirvara en Selenskí og Biden munu hafa rætt möguleikann á heimsókn um miðjan þennan mánuð. Formlegt boð um heimsókn barst svo síðasta föstudag og staðfesti Selenskí svo komu sína á sunnudaginn var. Úkraínuforseti mun nýta ferðina í margskonar fundi með bandarískum embættismönnum auk þess að ávarpa báðar deildir Bandaríkjaþings.
Selenskí heimsótti óvænt Bakhmut í austurhluta Úkraínu í gær þar sem harðir bardagar hafa geisað um mánaða skeið og hefur bænum verið lýst sem „hakkavél“.