Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að stjórnvöld hafi frá því í sumar lagt áherslu á aðhaldsaðgerðir hjá hinu opinbera vegna afleiðinga kórónuveirufaraldurs og stríðsins í Úkraínu. Eitthvað af þeim aðgerðum sem ráðist hafi verið í hjá hinu opinbera hafi gengið eftir en ljóst sé að enn þurfi að auka aðhaldið.
Bjarni hefur óskað eftir því að stofnanir leiti enn frekari leiða til að hagræða hjá sér.
„Þetta eru skilaboð til stofnananna sem fá þá fjárveitingarbréf um áramótin um umbótaverkefni og leiðir til að hagræða í ríkisrekstrinum. Það er viðvarandi verkefni. Það er ekkert hægt að horfa fram hjá því að útgjaldaliður ríkissjóðs helst í hendur við launaþróun þar sem stór útgjaldaliður er bara laun. En það er mjög víða hægt að gera betur alveg eins og hjá sveitarfélögunum.
Hann segir að í einhverjum tilvikum verði ekki ráðið í stöður þeirra sem hætta.
„Við þurfum að leita allra leiða til að auka skilvirkni. Það þarf ekki endilega að þýða að fólki verði sagt upp. Það kannski verður til þess að það verði óþarfi að ráða í framtíðinni sem ella hefði orðið niðurstaðan. Það sem skiptir máli er að halda aftur af fjölgun eða útgjaldaaukningu þar sem að við einfaldlega getum gert betur með nýjum aðferðum. Tökum sem dæmi stafrænt Ísland. Það er hagræðingarverkefni í aðra röndina en fjárfesting í hina,“ segir Bjarni að lokum.