Fótbolti

Rani­eri ekki dauður úr öllum æðum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ranieri er mættur aftur til Cagliari.
Ranieri er mættur aftur til Cagliari. Getty Images

Ítalski knattspyrnuþjálfarinn Claudio Ranieri hefur tekið að sér sitt 23. þjálfarastarf á ferlinum. Hann var á Þorláksmessu ráðinn þjálfari Cagliari sem spilar í Serie B á Ítalíu.

Ranieri er kannski hvað þekktastur fyrir ótrúlegt afrek sitt með Leicester City en hann gerði liðið að Englandsmeisturum árið 2016. Þessi 71 árs gamli Ítali hefur hins vegar komið víða við á ferli sínum og þjálfað þó nokkur stórliðin.

Hann stýrði Chelsea áður en José Mourinho tók við og þá hefur hann þjálfað Fulham og Watford á Englandi. Á Ítalíu hefur hann þjálfað flest stærstu lið landsins: Juventus, Roma, Inter Milan og Napoli meðal annars. Á Spáni stýrði hann Valencia og Atlético Madríd. Þá þjálfaði hann landslið Grikklands árið 2014.

Þetta er í annað sinn sem Ranieri tekur við Cagliari en hann stýrði liðinu frá 1988 til 1991. Liðið situr sem stendur í 14. sæti Serie B, næstefstu deildar á Ítalíu, með aðeins fimm sigra í fyrstu 18 deildarleikjum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×