„Það er ansi mikið að gera,“ segir Kjartan Hlöðversson, starfsmaður á Hótel Kötlu. Hann segir um 155 ferðamenn gista nú á hótelinu og segir að hafi komið sér á óvart hversu margir ferðamenn hafi komist leiðar sinnar til Víkur í gærkvöldi, jafnvel eftir að þjóðveginum var lokað.
„Við gerðum ráð fyrir degi þar sem við myndum fá helling af afbókunum en það var bara merkilega lítið af þeim. Það voru held ég þrír eða fjórir sem afbókuðu, sem okkur fannst bara ótrúlegt í gær. Ég held bara að ferðamenn beri ekki nægilega virðingu fyrir íslenskri náttúru. Þau henda sér af stað sama þótt götur séu færar eða ekki.“
Langflest herbergin eru í notkun núna að sögn Kjartans. Hann segir að fáir séu að stressa sig á ástandinu.
„Margir sem koma hingað halda jólin ekki hátíðleg á sama hátt og við gerum. Ferðamenn koma hingað til að upplifa snjóinn og norðurljósin. Fólk fékk heldur betur snjóinn í gær og svo spáir reyndar norðurljósum í kvöld, þótt það verði nú ansi skýjað“ segir Kjartan og hlær.
Þrátt fyrir aðstæður svífi því jólaandinn yfir vötnum.
„Eins og er, eru allir bara jákvæðir, fólk sættir sig við þetta. Það veit að það er á Íslandi. Ég segi bara welcome to Iceland.“