Unnur Ösp Stefánsdóttir, Ebba Katrín Finnsdóttir og Benedikt Erlingsson fara með hlutverk þriggja persóna sem hittast eina kvöldstund í heimahúsi. Samskiptin snúast fljótt upp í martraðarkennda viðureign, með grimmilegum ásökunum á báða bóga, þar sem enginn er óhultur og sannleikurinn smýgur stöðugt undan. Undir liggja ágengar spurningar um valdajafnvægi og trúnaðartraust í nánum samböndum, mörkin milli atvinnu og einkalífs, lygina og sannleikann – og ásakanir, hvort sem þær eru falskar eða sannar, eða málin flóknari en svo.
Líkt og fyrr segir er Ellen B fyrsta verkið í þríleik Mariusar von Mayenburg. Mayenburg er eitt stórvirkasta og beittasta leikskáld Evrópu í dag. Verk hans hafa verið þýdd á yfir þrjátíu tungumál og sett upp í leikhúsum víða um heim.
Benedict Andrews leikstýrir Ellen B. og Ex, á leikárinu 2022-23 og Marius von Mayenburg mun sjálfur leikstýra því þriðja, Egal (Alveg sama), haustið 2023. Nina Wetzel gerir leikmynd og búninga fyrir þríleikinn en hún er einn eftirsóttasti leikmynda- og búningahöfundurinn á meginlandi Evrópu um þessar mundir.
Íslenskir menningarunnendur létu sig ekki vanta á frumsýninguna í gærkvöldi enda er jólasýningin ein af hápunktum leikársins.










