Ingó hefur látið lítið fyrir sér fara í tæp tvö ár eftir margvíslegar ásakanir um kynferðisofbeldi og áreitni voru settar fram á hendur honum. Í viðtali við Vísi fyrr á þessu ári sagðist Ingó ekki hafa neinu að tapa. Hann vísaði ásökunum á bug og sagði þær hafa haft gríðarleg miklar og neikvæðar afleiðingar á líf sitt.
Í viðtalinu kom fram að hann hafi í kjölfarið hætt störfum hjá fyrirtæki sínu, afbókanir hefðu verið gríðarmiklar og engar bókanir fram í tímann hafi borist. Hann hefði þó ekki í hyggju að gefast upp og væri tilbúinn að koma fram á ný. Væntanlegir tónleikar staðfesta að hann sé klár í slaginn.
Nafnið Loksins Gigg vísar að öllum líkindum í nafnið á þættinum Í kvöld er gigg sem voru í umsjá Ingós og sýndir voru á Stöð 2. Þættirnir voru teknir af dagskrá þegar ásakanirnar á hendur honum komu fram.
Ekki náðist í Ingó við vinnslu fréttarinnar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fréttastofu.