Það hefur verið hefð fyrir því á íslandi að almenningur kveðji gamla árið á nýársnótt með flugeldasýningu sem inniheldur tilheyrandi sprengingar og björt ljós. Sá böggull fylgir skammrifi að flugeldarnir fallegu menga andrúmsloftið og hafa mikil áhrif á loftgæði. Umhverfisstofnun ákvað því í aðdraganda áramótanna að hvetja fólk til þess að sleppa flugeldunum og fagna nýju ári á umhverfisvænni hátt.
Otti Rafn Sigmarsson, formaður Slysavarnarfélagsins Landsbjargar sagði í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun að útspil umhverfisstofnunar hafa komið sér á óvart.
„Þetta svolítið kom aftan að okkur að þeir skyldu fara í þessa herferð svona á þessum tímapunkti allavega,“ segir Orri Rafn.
En fundu björgunarsveitarmenn fyrir minni sölu?
„Auðvitað svona herferð sem er beint gegn sölunni bara beint. Auðvitað hefur þetta allt áhrif.“
Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, segir að það sé beinlínis hlutverk stofnunarinnar að sinna fræðslu varðandi flugelda.
„Já það er gert ráð fyrir í landsáætlun um loftgæði, hreint loft til framtíðar, að stofnunin sinni fræðsluhlutverki meðal annars varðandi flugelda. Einkum þegar stefnir í það að það sé farið yfir heilsuverndarmörk.“

Það sé mikilvægt að fylgjast með loftgæðum. Ákveðnir hópar verði að geta treyst á það.
„En við erum auðvitað bara að hugsa um viðkvæma hópa sem sagt sem eru með einhverja öndunarfærasjúkdóma og börn og fleiri. og það gæti verið að það væru svona heldur fleiri í þessum hópi núna samhliða og í kjölfar covid,“ segir Sigrún.