Renner hlaut alvarlega áverka á bringu og fótlegg og missti mikið magn af blóði í slysinu.
Gríðarlegt fannfergi hefur verið víða í Bandaríkjunum síðustu daga og er Renner sagður hafa notast við eigin snjóbíl til að gera fjölskyldunni kleift að komast út af heimilinu í kjölfar mikils hríðarbyls.
„Fjölskylda Jeremy myndi vilja koma á framfæri þakklæti til þeirra mögnuðu lækna og hjúkrunarfræðinga sem annast hann,“ segir Samantha Mast, talsmaður Renner, í yfirlýsingu. Renner-fjölskyldan þakkar sömuleiðis lögreglu og slökkviliði á staðnum og fyrir þá hlýju og ást sem fjölskyldan hafi orðið áskynja í skilaboðum frá aðdáendum leikarans.
Hinn 51 árs leikari kom einn við sögu í slysinu að sögn talsmanns lögreglunnar í Washoe-sýslu í Navada. Málið sé til rannsóknar. Umræddur snjóbíll er sagður vera búinn sérstökum öryggisbúnaði sem á að gera slys nær ómöguleg.
Nágrannar Renner voru fljótir á vettvang og komu leikaranum til aðstoðar. Einn þeirra er læknir og á að hafa komið í veg fyrir að ekki hafi farið verr, en Renner var svo fluttur á brott með þyrlu á sjúkrahús í Reno.
Heimili leikarans er staðsett nærri skíðafjallinu Rose-fjalli í Tahoe sem er í um hálftíma akstursfjarlægð frá Reno í Nevada.
Hinn 51 árs gamli Renner hefur verið tilnefndur til Óskarsverðlauna í tvígang; fyrir hlutverk sín í myndunum Hurt Locker og The Town. Þá er hann einnig þekktur fyrir að hafa farið með hlutverk ofurhetjunnar Clint Barton, einnig þekktur sem Hawkeye, í Marvel-myndunum Avengers. Þá fór hann með hlutverk Aaron Cross í myndinni The Bourne Legacy frá árin 2012.
Um miðjan desember tísti leikarinn um fannfergið við heimilið við Tahoe-vatnog sagði það algeran „brandara“.
Lake Tahoe snowfall is no joke #WinterWonderland pic.twitter.com/6LBG9DsLAU
— Jeremy Renner (@JeremyRenner) December 12, 2022