Þetta kemur fram í dagbókarfærslu lögreglunnar fyrir gærkvöldið og nóttina sem leið. Nokkur erill var hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Í dagbókinni segir að tilkynnt hafi verið um slagsmál í hverfi 107 í gærkvöldi. Einn hafi verið handtekinn og vistaður í fangageymslu í þágu rannsóknar málsins. Vísir greindi frá því í gær að slagsmál hafi brotist út fyrir utan Háskólabíó á tíunda tímanum í gær. Háskólabíó er í hverfi 107.
Þá var tilkynnt um líkamsárás á skemmtistað í miðbænum. Einn var handtekinn grunaður um árásina og vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar. Einnig var tilkynnt um líkamsárás í verslun í miðbænum.
Nóg að gera hjá umferðardeild
Langflestar dagbókarfærslur lögreglunnar snúa að ætluðum brotum í umferðinni. Alls voru sjö ökumenn stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Tveir þeirra eru einnig grunaðir um vörslu fíkniefna.
Þá var ökumaður stöðvaður í Garðabæ sem reyndist vera aðeins sextán ára gamall og eðli málsins samkvæmt ekki með ökuréttindi. Sá var með tvo félaga sína með sér og foreldrum allra þriggja var gerð grein fyrir málinu.