Það er Fani T. Willis, héraðssaksóknari í Fultonsýslu í Georgíu, sem taka mun ákvörðun um að ákæra Trump og/eða aðra vegna rannsóknarinnar og er búist við ákvörðun á næstu vikum. Starfsmenn hennar hafa tilkynnt nærri því tuttugu manns að þau standi frammi fyrir mögulegum ákærum vegna rannsóknarinnar, samkvæmt frétt New York Times.
Ákærudómstóll er fyrirbæri vestanhafs þar sem kviðdómendur eru fengnir til að fara yfir vitnisburð og gögn í ákveðnum málum og kanna hvort þeim þyki tilefni til að leggja fram ákærur vegna meintra brota.
Þessi tiltekni ákærudómstóll er að rannsaka hvort Trump og bandamenn hans hafi brotið lög með því að þrýsta á embættismenn í Georgíu og reyna að fá úrslitum kosninganna hnekkt.
Sjá einnig: Stefna bandamönnum Trumps vegna sakamálarannsóknar í Georgíu
Rannsókn ákærudómstólsins hófst í janúar í fyrra.
Trump hélt því ítrekað ranglega fram í kjölfar forsetakosninganna í nóvember 2020 að umfangsmikið kosningasvindl hefði kostað hann sigur. Forsetinn þáverandi og bandamenn hans lögðu mikla áherslu á Georgíu þar sem Joe Biden, núverandi forseti, bar sigur úr býtum með tiltölulega litlum mun.
Tæplega tólf þúsund atkvæði skildu þá Trump og Biden af. Forsetinn þrýsti á embættismenn í Georgíu og bað þá um að „finna“ nógu mörg atkvæði til að tryggja sér sigurinn.
Trump hefur lýst því yfir að hann sækist aftur eftir tilnefningu Repúblikanaflokksins til forsetakosninganna á næsta ári. Enn sem komið er hefur enginn farið fram gegn honum.