Innlent

Lögregla kölluð til vegna hótana, líkamsárása og veikinda

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vísir/Vilhelm

Tveir menn voru handteknir í miðborginni í gærkvöldi í tveimur aðskildum málum. Annar var handtekinn fyrir hótanir en hinn vegna líkamsárásar. Báðir voru vistaðir í fangageymslu.

Frá þessu greinir í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu um verkefni næturinnar.

Þar greinir einnig frá því að lögregla hafi verið kölluð til í nótt til að aðstoða leigubifreiðastjóra „vegna fjársvika“. Má leiða líkur að því að viðskiptavinur hafi neitað að greiða fyrir farið.

Lögregla var einnig tvisvar kölluð til vegna veikinda og í báðum tilvikum voru viðkomandi fluttir á bráðamóttöku Landspítalans.

Nokkrir voru stöðvaðir í umferðinni grunaðir um akstur undir áhrifum og þá var tilkynnt um þjófnað í póstnúmerinu 109.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×