Aðalþjálfari liðsins var í leikbanni upp í stúku og aðstoðarmaður hans því á hliðarlínunni. Það þótti ansi augljóst að þeir væru að svindla með því að vera í sambandi en þjálfarinn sór fyrir það og sagðist vera heyrnarskaddaður. Þá sprakk Bjarki næstum úr hlátri og Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari glotti létt.
„Þetta var eitt það besta sem ég hef heyrt. Ég gat ekki haldið aftur af mér. Fólk verður bara að rýna í hvort það sem hann sagði hefði meikað eitthvað sens,“ sagði Bjarki Már skellihlæjandi fyrir æfingu íslensku liðsins í dag.
„Þetta var frábær saga. Hann var búinn að æfa þessa fyrir framan spegilinn. Það er 100 prósent. Þetta var geggjað.“