Bílarnir sem gerðir hafa verið upptækir eru meðal annars af gerðinni Rolls Royce, Ferrari, Porsche og Mercedes-Benz. Guardian greinir frá því að fimmtán bílar og tíu fasteignir hafi verið gerðar upptækar við rannsókn málsins.

Andrew Tate og bróðir hans, Tristan Tate, voru handteknir 30. desember síðastliðinn grunaðir um mansal og nauðganir. Sama sólarhring var kveðinn upp gæsluvarðhaldsúrskurður en dómari taldi hættu á að bræðurnir myndu flýja úr landi.
Lögreglan í Rúmeníu segir bræðurna grunaða um að hafa tælt konur til Rúmeníu þar sem þeim hafi svo verið haldið gegn vilja þeirra. Þeim hafi verið nauðgað og þær þvingaðar með ofbeldi til að framleiða klám.
Andrew Tate, sem er bæði breskur og bandarískur ríkisborgari, var á síðasta ári bannaður á helstu samfélagsmiðlum vegna kvenhaturs. Hann hefur meðal annars sagt að konur beri að hluta til ábyrgð á því að vera nauðgað og að þær tilheyri karlmönnum.
Bræðurnir hafa neitað ásökununum en fyrr í vikunni hafnaði rúmenskur dómstóll áfrýjun Tate á farbanni hans og úrskurðaði að hann þyrfti að sæta gæsluvarðhaldi á meðan rannsókn málsins stæði. Þeir bræður munu því að minnsta kosti dúsa í gæsluvarðhaldi í Rúmeníu þar til 30. janúar næstkomandi.