Lögreglan í Lundúnum staðfesti í dag að stuðningsmaðurinn, sem heitir Joseph Watts, hafi verið ákærður fyrir líkamsárás, ásamt því að vera ákærður fyrir að ryðjast inn á lokað svæði og að kasta blysi inn á völlinn.
Hinn 35 ára gamli Watts var, eins og margir stuðningsmenn Tottenham, pirraður eftir 2-0 tap liðsins á heimavelli gegn erkifjendunum í Arsenal síðastliðinn sunnudag. Watts gekk þó lengra en flestir þegar hann klifraði upp á auglýsingaskilti fyrir aftan völlinn og sparkaði í Ramsdale eftir að leiknum lauk.
Atvikið var fordæmt af leikmannasamtökum ensku deildarinnar, sem og enska knattspyrnusambandinu. Þá sendi Tottenham frá sér yfirlýsingu eftir leikinn þar sem kom fram að stuðningsmaðurinn hafi verið settur umsvifalaust í bann.