Á morgun er næstsíðasta umferð milliriðlakeppninnar og mun Ísland mæta Evrópumeisturum Svía í lokaleik dagsins, klukkan 19:30 að íslenskum tíma.
Áður en að því kemur mætast Grænhöfðaeyjar og Portúgal, og Brasilía og Ungverjaland. Svona er staðan fyrir leikina en tvö efstu liðin komast í 8-liða úrslit:

Það sem myndi henta Íslendingum best væri að Grænhöfðaeyjar og Brasilía fögnuðu sigri á morgun. Þá væri Ísland með örlögin í eigin höndum jafnvel þó að liðið tapaði gegn Svíum, og myndi duga að vinna Brasilíu á sunnudaginn.
Sennilegra er hins vegar að Ísland missi Portúgal upp fyrir sig á morgun, og það myndi strax flækja málin. Portúgal mætir nefnilega Svíum á sunnudaginn og ef að Svíar vinna Ísland verða þeir búnir að tryggja sér efsta sæti riðilsins, og geta slakað alveg á gegn Portúgölum.
Og ef að Ungverjar vinna Brasilíu og svo Grænhöfðaeyjar á sunnudag er alveg ljóst að það væri ekki nóg fyrir Ísland að vinna bara Brasilíu, til að ná 2. sæti.
Ef Portúgal og Ungverjaland vinna bæði á morgun, en Ísland tapar, mun því aðeins veik von lifa um sæti í 8-liða úrslitum. Ísland þyrfti þá að treysta á sigur eða jafntefli Svía gegn Portúgal á sunnudag, í leik sem myndi ekki skipta Svía máli, og það að Grænhöfðaeyjar tækju stig af Ungverjum.
Sigur eða jafntefli dugar alltaf til að Ísland ráði eigin örlögum
Sigur gegn Svíum kæmi Íslandi hins vegar í algjöra kjörstöðu en liðið myndi þó alltaf þurfa að vinna Brasilíu á sunnudaginn einnig. Það myndi skila liðinu efsta sæti riðilsins og mögulega koma í veg fyrir leik við heimsmeistara Danmerkur í 8-liða úrslitum.
Jafntefli gegn Svíum mun sömuleiðis duga Íslandi til að vera með örlögin í eigin höndum, sama hvernig aðrir leikir fara á morgun. Ísland þyrfti sjálfsagt sigur gegn Brasilíu en Portúgal væri þá eina liðið fyrir utan Svíþjóð sem gæti náð Íslandi að stigum, og innbyrðis úrslit myndu duga Íslandi til að komast í 8-liða úrslit. Að þessu leyti hjálpar það Íslandi að Portúgal og Brasilía skyldu gera jafntefli í gær.