Mary Carmack-Altwies, héraðssaksóknari í Santa Fe, greindi frá þessu í yfirlýsingu í dag en auk Baldwins hefur Hannah Gurierrez Reed, vopnavörður myndarinnar, verið ákærð fyrir manndráp af gáleysi í tveimur liðum.
Baldwin var að æfa það að draga byssuna upp úr slíðri fyrir framan myndavél þegar það hljóp úr henni skot sem hæfði Hutchins og Joel Souza, leikstjóra myndarinnar. Souza særðist lítillega en Hutchins lést. Í október 2022 samþykkti framleiðslufyrirtækið sáttargreiðslur til fjölskyldu hennar og var þá ákveðið að tökum skyldi haldið áfram.
Baldwin hefur ávalt haldið því fram að um slys hafi verið að ræða og að hann hafi ekki tekið í gikkinn. Alríkislögregla Bandaríkjanna, FBI, komst þó að þeirri niðurstöðu í ágúst 2022 að hann hafi gert það.
Reed sagði skömmu eftir að Hutchins lést að mögulega hafi einhver sett hefðbundið byssuskot í byssuna sem var notuð við æfingar. Sjálf hafi hún þó skoðað byssuna áður en hún rétti David Halls, aðstoðarleikstjóra myndarinnar, hana sem hafi síðan rétt Baldwin byssuna og tilkynnt að hún væri óhlaðin.
Hvorugt þeirra hefur tjáð sig um ákærurnar, að því er segir í frétt BBC, en Carmack-Altwies sagði næg sönnunargögn til staðar til að ákæra þau. Eiga þau yfir höfði sér allt að átján mánaða fangelsi og fimm þúsund dala sekt.
„Á minni vakt þá er enginn yfir lögin hafinn og allir eiga réttlæti skilið,“ sagði hún.
Uppfært:
Í upprunalegri útgáfu fréttarinnar sagði að Baldwin hafi verið ákærður. Hið rétta er að hann verði ákærður.