Lífið

HM-maðurinn segir alla hljóta að skilja hitann

Sunna Sæmundsdóttir og Stefán Árni Pálsson skrifa
Feðginin Karl Björg­vin Brynj­ólfs­son og Edda Mjöll Dungal Karlsdóttir. 
Feðginin Karl Björg­vin Brynj­ólfs­son og Edda Mjöll Dungal Karlsdóttir.  vísir/samsett

Sterkar tilfinningar HM-mannsins svokallaða yfir leikjum á stórmótum hafa vakið mikla athygli og kátínu landsmanna. Hann er nú staddur í Gautaborg og segir hvern einasta Íslending hljóta að skilja hitann.

Frammistaða Karls Björg­vins Brynj­ólfs­sonar í stúkunni á heimsmeistaramótinu í handbolta hefur vakið verðskuldaða athygli. Þar, líkt og reyndar í sófanum heima, virðist hann óhræddur við að sýna tilfinningar sínar.

Á bak við myndavélina er dóttir hans Edda Mjöll sem lætur fátt fram hjá sér fara.

„Það eru margir búnir að spyrja mig hvort ég sé nokkuð að horfa á leikina. En ég næ sko alveg að horfa á leikina og mynda hann,“ segir Edda glettin.

Margir eru eflaust þakklátir fyrir metnaðinn en yfir hundrað þúsund þúsund manns hafa til dæmis horft á tilfinningaþrungin viðbrögð Karls við frammistöðu liðsins á Evrópumótinu í fyrra.

„Ég hef bara alist upp við þetta. Svona hefur alltaf verið inn á heimilinu mínu og ég bara byrjaði að taka upp og fólk brást svona við.“

Karl segir hitann fullkomlega eðlilegan.

„Þetta er bara eins og ég held að allir séu heima hjá sér. Nema það eru bara ekki allir að henda því á Tiktok eða Facebook eða eitthvað,“ segir Karl og skýtur létt á dóttur sína. „En ég held að hver einasti Íslendingur sé svona þegar hann er að horfa á landsleiki með íslenska landsliðinu.“

Þá var hann ekki í miklum vandræðum með að svara fyrir hrekkinn þegar fréttamaður rakst á feðginin í Gautaborg. „Fyrir ykkur sem heima sitjið - bara áfram Ísland og svo er dóttir mín 29 ára gömul og býr enn þá  heima. Hún er á lausu og í guðanna bænum, getur ekki bara einhver, einhver, skoðað það,“ segir Karl og hlær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.