Innlent

Réðst á leigu­bíl­stjóra

Atli Ísleifsson skrifar
Maðurinn olli einnig skemmdum á leigubílnum.
Maðurinn olli einnig skemmdum á leigubílnum. Vísir/Vilhelm

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu var kölluð út eftir að leigubílstjóri óskaði aðstoðar vegna farþega sem hafði veist að honum með ofbeldi.

Frá þessu segir í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þar sem segir frá verkefnum gærkvöldsins og næturinnar. Þar kemur fram að atvikið hafi átt sér stað um klukkan hálf eitt í nótt. Maðurinn olli auk þess skemmdum á leigubílnum og var hann handtekinn. Hann var fluttur í fangaklefa þar til að hægt verður að ræða við hann vegna vímuástands.

Um klukkan eitt í nótt var tilkynnt um ökumann sem virtist sofa undir stýri á gatnamótum. „Þegar lögregla hafði afskipti af ökumanninum reyndist hann undir áhrifum áfengis. Aðilinn færður á stöð og laus að blóðsýnatöku lokinni.

Um miðnætti óskaði ökumaður eftir aðstoð lögreglu eftir að hafa ekið út af í Heiðmörk. Maðurinn kenndi sér meins en afþakkaði aðstoð sjúkraflutningamanna.

Ók á ofsahraða og hafnaði utan vegar

Skömmu eftir miðnætti hafði lögregla afskipti af ökumanni bíls og gaf honum merki um að stöðva bílinn til að hægt væri að kanna ástand hans og réttindi. Ökumaðurinn virti ekki stöðvunarmerki lögreglu og ók á ofsa hraða og endaði utan vegar. 

„Litlu mátti muna að bifreiðin endaði inni í garði. Ökumaðurinn tók svo á rás en var hlaupinn uppi og handtekinn. Ökumaðurinn reyndist einnig eftirlýstur hjá lögreglu vegna annara mála auk þess að vera grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar,“ segir í dagbók lögreglu.

Líkamsárás í miðborginni

Í miðborg Reykjavíkur var maður handtekinn vegna líkamsárásar og hann vistaður í fangaklefa þar til að hægt verður að ræða við hann vegna ölvunarástands.

Lögregla stöðvaði einnig nokkurn fjölda ökumanna sem grunaðir eru um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×