United byrjaði leikinn af miklum krafti og Marcus Rashford, sem hefur verið sjóðandi heitur undanfarið, skoraði strax á sjöttu mínútu leiksins.
Hollendingurinn Wout Weghorst, sem gekk til liðs við United á dögunum, tvöfaldaði svo forystuna á 45.mínútu. Hann skoraði þá sitt fyrsta mark fyrir félagið og kom United í góða stöðu fyrir síðari hálfleikinn.
Í siðari hálfleik þurfti United síðan bara að halda velli. Þeir spiluðu vel og voru með alla stjórn á leiknum. Bruno Fernandes gulltryggði sigur liðsins á 89.mínútu þegar hann skoraði þriðja mark liðsins eftir sendingu Anthony Elanga.
Lokatölur 3-0 og United því komið í verulega góða stöðu í einvígi liðanna um sæti í úrslitaleiknum. Síðari leikurinn fer fram eftir viku og þarf Nottingham Forest að vinna upp þriggja marka forskot á Old Trafford, ærið verkefni það.